Greiðslur til öryrkja samkvæmt dómi Hæstaréttar

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:12:30 (1012)

2003-11-03 15:12:30# 130. lþ. 19.1 fundur 115#B greiðslur til öryrkja samkvæmt dómi Hæstaréttar# (óundirbúin fsp.), HHj
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það væri nú vert af forseta að brýna fyrir a.m.k. sumum ráðherrum að brýna nokkuð raustina í ræðustólnum. Því að þó að guð hafi gefið þeim hv. þm. sem hér stendur stór eyru, þá er með naumindum að við sem erum á öftustu bekkjunum heyrum svör sumra.

Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi þann dóm sem féll í Hæstarétti sl. mánuð í máli nr. 549/2002, mál Ingibjargar Gunnarsdóttur gegn Tryggingastofnun ríkisins, sem þingmenn og ráðherrar þekkja. Laut það lögum nr. 3/2001 sem sett voru eftir að Hæstiréttur hafði úrskurðað um lögin fyrri nr. 149/1998. Spurningin sem ég vil beina til hæstv. heilbrrh. er: Hvenær mega örorkulífeyrisþegar, sem rétt eiga á greiðslum samkvæmt dómi Hæstaréttar, búast við því að Tryggingastofnun inni þær greiðslur af hendi? Ég vek athygli á því að hér hefur verið úrskurðað að farið hafi verið gegn einkaeignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og því ákaflega brýnt að því sé hraðað að fara að dómnum og skila fólki lögmætum eigum sínum og það helst án tafar. En sömuleiðis vil ég spyrja hvort heilbrrh. hafi gefið Tryggingastofnun fyrirmæli um það með hvaða hætti skuli staðið að útgreiðslum og þá hvaða fyrirmæli. Fulltrúar Tryggingastofnunar voru í sl. viku á fundi okkar í fjárln. Þar kom fram að það væru uppi ýmis álitamál um túlkun dómsins og hvernig standa skyldi að útgreiðslunum. Það væri gott ef heilbrrh. gæti upplýst hvaða álitamál eru þar á ferðinni, hvort það varðar skattalega meðferð, hvort það eigi að meðhöndla greiðslurnar sem skaðabætur eða tekjur eða hvaða önnur álitamál kunni að vera þarna uppi. Sérstaklega var það tekið fram að við túlkun fyrri dómsins hafi ríkisstjórnin tekið þá grundvallarafstöðu að enginn örorkulífeyrisþegi skyldi vera verr staddur eftir dóminn en fyrir og ástæða til að spyrja hvort slík fyrirmæli hafi verið gefin út.