Nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:22:35 (1018)

2003-11-03 15:22:35# 130. lþ. 19.1 fundur 116#B nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt að tilnefningar í nefndina voru komnar til mín í vor. Ekki var gengið frá nefndinni fyrr en eftir kosningar og hún er nú komin á laggirnar og mun byrja að starfa af fullum krafti. Ég hef ekki sett þessari nefnd ákveðin tímamörk. Ég tel að þarna sé um mjög viðamikið mál að ræða og að hún þurfi tíma til þess að fara yfir sín verk og þurfi alla vega veturinn til þess þannig að ég reikna ekki með að afraksturinn af starfi hennar verði lagður fram á þessu þingi, en þarna þarf að vanda til verka.

Varðandi rekstur heilbrigðiskerfisins almennt þá væri ástæða til þess að taka umræðu um þann hluta og stefnubreytingu Samf. og hina nýju heilbrigðisstefnu þeirra sem er ekkert ný vegna þess að einkarekstur og kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu er ekkert nýtt. Heilbrigðisþjónustan er mest rekin undir þessum formerkjum með kaup og sölu, t.d. öldrunarþjónustan. Ég stóð í mikilli utandagskrárumræðu við samfylkingarfólk fyrir ári síðan út af tilraun að bjóða út eina heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi, í langri umræðu hér, þannig að þessi stefnubreyting og þessi kanína sem þeir voru að draga upp úr hatti um helgina, að markaðslögmálið þyrfti bara að leysa heilbrigðisþjónustuna, er ekkert ný. Þarna er bara verið að ganga til liðs við stefnu stjórnarflokkanna í málinu.