Gjaldtaka fyrir tæknifrjóvgun krabbameinssjúkra kvenna

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:27:33 (1021)

2003-11-03 15:27:33# 130. lþ. 19.1 fundur 117#B gjaldtaka fyrir tæknifrjóvgun krabbameinssjúkra kvenna# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu fyrir tæknifrjóvgunarmeðferð ungra krabbameinssjúkra kvenna. Ungar konur sem fá alvarlega blóðsjúkdóma svo sem hvítblæði eða krabbamein sem kallar á mergskipti, þurfa að fara í erfiða lyfjameðferð sem hefur þær afleiðingar að þær verða ófrjóar og geta ekki eignast börn eftir slíka meðferð. Þessar ungu alvarlega veiku konur þurfa að greiða háar fjárhæðir, 200--300 þús. kr. og jafnvel meira fyrir aðgerð sem felst í því að láta taka egg og tæknifrjóvga áður en þær fara í lyfjameðferðina. Þetta er erfið meðferð sem þær þurfa að fara í áður en krabbameinsmeðferðin hefst. Þetta er erfið meðferð fyrir heilbrigðar konur hvað þá fyrir þessar veiku ungu konur, og síðan tekur við erfið krabbameinsmeðferð hjá þeim.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum eðlilegt að taka svo háar greiðslur af þessum veiku ungu konum fyrir slíka meðferð svo þær geti eignast börn síðar á ævinni? Ég spyr hæstv. ráðherra einnig hvort hann muni beita sér fyrir því að greiðslur fyrir aðgerðir fyrir þessar ungu konur verði felldar niður þannig að þær fái hana endurgjaldslausa. Í dag kemur ríkið ekki til móts við greiðslurnar og þær greiða samkvæmt gjaldskrá fyrir slíka meðferð.