Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:43:59 (1032)

2003-11-03 15:43:59# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég segi þykja mér gilda nokkuð augljósar og aðrar reglur hvað snertir Landsvirkjun. Hins vegar hefði mátt koma með þau rök að þau sjónarmið sem ég færði fram gagnvart Landssímanum hefðu til að mynda átt við eða getað átt við um bankana á sinni tíð eftir að þeim var breytt í hlutafélög. Hugsunin er sú að t.d. bankamálaráðherrann kemur með vissum hætti að málefnum bankanna, sem eftirlitsaðili í öðru hlutverkinu og eigandi á hinn bóginn. Nú er þetta náttúrlega allt breytt og ekki sömu forsendur fyrir hendi. Það sama gerist með Landssímann, að hæstv. samgrh. kemur fram sem eftirlitsaðili eða yfirmaður eftirlitsstofnunar í einu hlutverkinu og svo eigandi í hinu. Það fer ekki vel á því. Þess vegna eru þessar breytingar gerðar.