Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:13:35 (1038)

2003-11-03 16:13:35# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst megininntak ræðu hv. þm. einmitt beinast að gagnaflutningi og dreifikerfinu. Öll ræðan snerist um þessa grunnþjónustu og mikilvægi hennar. Og ég tek undir þær áhyggjur og deili þeim með þingmanninum. Mér finnst dreifikerfið vera alveg sambærilegt við vegakerfið og að það séu slíkir þættir sem eigi að vera hjá ríkinu, en aðrir samkeppnisþættir eigi svo þess vegna heima annars staðar. Ég minni á að þegar það var úrskurðað að Landssíminn þyrfti að skilja GSM-deildina frá öðrum rekstri af því að komin voru önnur GSM-fyrirtæki í landið og á markað sem töldu að það væri óeðlilegt að slík deild gæti verið innan þess stóra fyrirtækis sem Landssíminn var. Við vitum það, ég og hv. þm., að hlutdeild Íslands í gervitunglum t.d., sem er upp á tugi milljóna króna hver hlutdeild, liggur hjá þessu ríkisfyrirtæki sem Landssíminn er. Við hugsum mjög sjaldan um að við eigum hlutdeild í gervitunglum sem við höfum haft samvinnu um og að sú eign er hjá þessu fyrirtæki. Þess vegna spyr ég þingmanninn: Er þetta ekki aðalmálið? Er það ekki aðalmálið að standa vörð um grunnnetið og gagnaþjónustuna? Er það ekki í raun og veru stóra byggðamálið og stóra málið í þessu öllu að standa vörð um það og skilja það frá eins og hann nefndi réttilega að Samf. hefði lagt áherslu á? Og snýst ekki ræða hans öll um nákvæmlega þetta sama og við erum að leggja áherslu á?