Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:15:36 (1039)

2003-11-03 16:15:36# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Það var eitt megininntakið í mínum málflutningi. Þessi undirstöðuþjónusta, umferðaræðar fjarskiptanna, eru gríðarlega mikilvægar. Það skiptir að sjálfsögðu máli hvernig með þær er farið. Hins vegar er of langt gengið að láta að því liggja að ég og hv. þm. eða ég og Samfylkingin, minn flokkur og síðan Samfylkingin, séu sammála um að þar með sé björninn unninn með því að taka upp þá stefnu að ekki eigi að einkavæða grunnnetið, m.a. og ekki síst vegna þess að það er alls ekkert í boði. Hæstv. ríkisstjórn hefur hafnað þeirri leið. Framsókn lak niður. Það er ekki í boði. Þá verða menn að gera það upp við sig hvort þeir vilji einkavæðingu Landssímans að því gengnu þegar það er alls ekkert í boði og þetta snýst um annaðhvort eða.

Það er rétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi og rifjaði upp. Ýmislegt hangir þarna á spýtunni, t.d. sæstrengir, eignarhlutur okkar í gervihnattafyrirtækjum og ýmislegt fleira. Ég hef að þessu spurt áður. Á þetta allt saman að fara með? Mér skilst að svarið sé já.

Strax þegar því ágæta fyrirtæki Pósti og síma var skipt upp eða það reyndar ,,háeffað`` í byrjun með svardögum og loforðum um að alls ekki stæði til að einkavæða, ekki hæti. Um það má finna vitnisburðinn úr þessum ræðustóli. Þáverandi hæstv. samgrh., núv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, sagði að það yrði nú aldeilis ekki, þetta væri bara formbreyting og til marks um það yrði bara gefið út eitt hlutabréf. Menn sæju náttúrlega að ekki stæði til að selja hlut í slíku fyrirtæki. Ekki yrði þetta hlutabréf rifið í sundur og seld af því hornin. Nei, nei. Það yrði bara gefið út eitt hlutabréf og það væri til marks um að engin einkavæðing væri þarna fyrirhuguð. Það loforð náði varla að kólna áður en hafinn var undirbúningur að því, fyrst að skipta fyrirtækinu upp og svo að undirbúa einkavæðingu. Þannig hefur þetta allt saman verið.

Í raun stöndum við frammi fyrir hreinni víglínu, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Viljum við þetta eða viljum við það ekki, það sem í boði er af hálfu ríkisstjórnarinnar?