Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:30:49 (1046)

2003-11-03 16:30:49# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001.

Virðulegi forseti. Mér finnst með ólíkindum að ekki skuli vera fleiri hv. þingmenn við umræðuna á hinu háa Alþingi vegna þess að hér er sannarlega um stórmál að ræða. Verið er að opna á það sem ákveðið hefur verið, þ.e. að selja fyrirtækið Landssímann hf.

Hvernig fyrirtæki er Landssíminn hf.? Það hefur margoft komið fram hér. Síminn er vel tæknivæddur. Hann þjónar mjög vel hinu 103 þúsund ferkílómetra landi með svo fáum íbúum sem raun ber vitni. Þráfaldlega hefur komið fram að Síminn er ódýr og stenst alla samkeppni við önnur lönd og er meira að segja miklu ódýrari en annars staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Mjög mikilvægt er að fara í efnislega umræðu um hvernig við viljum haga þessum málum. Komið hefur fram t.d. hjá Samf. að hún vilji halda eftir grunnnetinu. En við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum klárlega sett fram þá stefnu okkar að við viljum halda þjónustufyrirtæki eins og Landssímanum í eign ríkisins. Við höfum fært fyrir því fjölmörg rök. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór í gegnum þau mál öll í ræðu sinni áðan og gerði því mjög góð skil.

Hver er staðan í fjarskiptamálum í nágrannalöndum okkar? Ég minnist þess að hafa lesið um það að í heimabyggð minni, Dalvík, var einkasími fyrir daga Landssímans. En gallinn var bara sá að síminn á Dalvík náði bara á milli húsa á Dalvík og enginn náði lengra. Símafélagið á Dalvík var því sameinað Landssímanum og gekk inn í hann til að menn gætu átt samskipti á milli svæða, á milli héraða og milli bæja. Einföld tillaga.

Hver er reynslan af samkeppni og nýjum félögum inn á símamarkaði t.d. í löndunum í kringum okkur? Í mörgum stórum borgum eru menn orðnir einangraðir í litlum félögum sem ná ekki út fyrir símasvæði sín. Það eru t.d. mörg félög í London sem ná ekki út fyrir og hafa ekki samninga við önnur lönd, þannig að ekki er hægt að hringja á milli. Þetta er afleiðing þess að menn hafa einangrað sig og er áratuga afturför miðað við það sem áður var. Ég minnist þess að ég var í heimsókn á eyjunni Isle of Man þar sem ríkir mikil frjálshyggjustjórn. Þeir sömdu við tiltölulega lítið símafyrirtæki á Isle of Man, Manareyju, um símaþjónustu við landið. Við komumst að því, íbúar frá Norðurlöndum sem þar vorum í heimsókn, að enginn okkar náði út fyrir eyjuna í síma og við héldum allir að símarnir okkar væru bilaðir. En við komumst að því að láðst hafði að gera samning á Isle of Man þannig að símafyrirtækið sem var ráðandi og ríkjandi á markaði þar á eyjunni hafði enga samninga við stóru símafyrirtækin í öðrum löndum, þannig að eyjan var meira og minna einangruð, náði sér í símaþjónustu í gegnum London o.s.frv. Ætla menn að horfa fram á slíka þróun í samfélagi okkar?

Við höfum fylgst með hvað þeir hugsa og setja fram sem eiga símafyrirtækin sem eru hér í samkeppnisrekstri. Það hefur margoft komið fram að menn vilja ekki standa í neinum stórræðum um sinn vegna þess að menn líta á það sem biðtíma þar til Landssíminn verður á sölutorgi. Augljóst er af því sem maður ímyndar sér í framhaldi af umræðum um þessi mál að þeir sem eru á markaði og keppa núna hugsa sér að fara fram með þeim hætti að koma á einkavæddri einokun á símkerfi landsins. Ég get ekki túlkað hlutina öðruvísi miðað við það sem ég hef lesið um hug þessara manna til framtíðar fjarskipta af þessu tagi í landinu.

Þess vegna teljum við mjög mikilvægt að horfið sé frá þeim áformum. Sérstaklega vegna þess, eins og fram hefur komið m.a. í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að númer eitt, tvö og þrjú mun það verða landsbyggðin sem blæðir fyrir breytt form. Og það er ekki bara vandamál landsbyggðarinnar vegna þess að okkar annar stærsti atvinnuvegur, ferðaþjónustan, þarf svo sannarlega á því að halda og byggist á því að hér séu góð fjarskipti um allt landið, þetta 103 þúsund ferkílómetra land. Það er grundvallaratriði í þessu samhengi. Þess vegna viljum við hvetja til þess að menn fari ekki fram með þeim hætti og rasi ekki um ráð fram.

Það hefur margoft komið fram að ríkisstjórnin ætlar ekki að setja neinar girðingar af neinu tagi, t.d. að læra af reynslu Nýsjálendinga hvað varðar einhvers konar tök á fyrirtækinu í framtíðinni. Þetta er virkilegt áhyggjuefni.

Virðulegi forseti. Það eru fyrst og fremst þessi atriði sem ég tel að sé nauðsynlegt að þjóðin geri sér grein fyrir. Sumir hv. þingmenn hafa bent á stöðuna á raforkumarkaði og einkavæðingaráform þar eða samkeppnismöguleika sem nýverið er búið að innleiða. Við höfum nú þegar allnokkra reynslu af slíku ferli t.d. í Evrópu, þar sem menn telja að orkuafhendingartruflanir af mörgu tagi, sumar gríðarlega stórar eins og á Ítalíu um daginn, séu bein afleiðing af því sem er búið að gera í einkavæðingu orkugeirans í Evrópu. Þar sögðu menn og settu fram sem meginástæðu fyrir einkavæðingunni að 20% offramleiðsla væri í kerfinu. Þessi 20% ættu að koma neytendum til góða. En það er bara ekki þannig þegar upp er staðið. Menn setja þessi 20% á sölutorg. Þeir loka óarðbærum einingum. Og þegar í harðbakkann slær, veður versnar, álag eykst, þá er kerfið ekki tilbúið vegna þess að eigendur kapítalsins, eigendur fjármagnsins vilja ekki sitja uppi með kvöðina um öryggið af neinu tagi. Þannig gerast kaupin á markaðstorginu. Það er engin kvöð. Það er engin skylda. Það er bara að hala inn í núinu eins miklu og gengið getur.

Það eru slík varnaðarorð sem verður að hafa í frammi varðandi sölu á grunnþjónustu eins og Landssímanum. Þau hafa verið höfð í frammi af okkar hálfu varðandi markaðsvæðingu eða samkeppnisvæðingu á raforkumarkaði. Við erum að tala um svið eins og afhendingu á köldu og heitu vatni. Grunnþjónusta sem allir þurfa að nota og verður sú notkun ekki dregin verulega saman þó svo að einhverjir komist yfir að eiga viðkomandi fyrirtæki.

En samfélagsleg áhrif, virðulegi forseti, geta orðið gríðarleg. Og það að hafa ekki öflug, góð og ódýr fjarskipti um allt land gerir það að verkum að það er innantómt tal að ræða um uppbyggingu á tækniiðnaði eða hvers konar iðnaði, búsetu fólks úti á landi o.s.frv. nema þessir grunnþættir séu í lagi, þ.e. fjarskiptamálin. Sennilega eru þau að verða eitt af stóru atriðunum eða lykilatriðin í ákvarðanatöku um búsetu á landsbyggðinni og uppbyggingu fyrirtækja þar. Gríðarlega mikilvægur þáttur, auk þess eins og ég nefndi áðan með öruggri afhendingu á annarri orku, svo sem rafmagni eða heitu vatni.

Við erum að ræða, virðulegi forseti, um stórmál vetrarins. Mér finnst með eindæmum ef hv. þingmenn ætla ekki að taka þátt í umræðunni og gera þjóðinni frá hinu háa Alþingi grein fyrir því hvar þeir standa í málinu. Það er algjörlega nauðsynlegt. Vegna þess að þjóðin hefur reynslu af þessari svokölluðu formbreytingu sem framsóknarmenn tala um. Formbreyting fyrirtækja, það muni ekki neitt breytast. En við höfum eins og ég segi þessa löngu reynslu þar sem formbreytingin tekur gildi en síðan að örfáum missirum liðnum stökkva menn til og selja, hvort sem það hafa verið fyrirtæki í ríkiseigu eða þjónustufyrirtæki, svo sem eins og bankarnir. Ævinlega var talað um að breytingin á bankakerfinu, þ.e. formbreytingin þar, þýddi ekki endilega sölu. Menn undirstrikuðu það, sérstaklega framsóknarmenn, bara til að halda kjósendum sínum við það að trúa því að þeir hygðust ekki gera það. Það er mergurinn málsins.

Framsóknarmenn gengu líka fram í síðustu kosningabaráttu og sögðu öllum sem heyra vildu að þeir mundu ekki selja Landssímann. Það eru staðreyndir mála. Heima í héraði var gengið fram af hálfu framsóknarmanna með þann boðskap. Og hv. þingmenn framsóknarmanna verða að koma fram í þessari umræðu og gera þjóðinni grein fyrir því hvert þeir stefna í málinu og hvernig þeir sjá framtíðina varðandi fjarskiptamálin, þ.e. Landssíma Íslands. Það er algjörlega nauðsynlegt.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir og ég held að enginn velkist í vafa um hug okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til þessara mála. Við höfum lagt á það megináherslu allt frá stofnun flokks okkar og í málflutningi okkar á hinu háa Alþingi að við viljum og stöndum vörð um grunnþjónustu landsins. Þar undir eru fjarskiptin. Þar undir eru orkumálin og orkuafhendingarmálin, hvort sem við erum að tala um rafmagn, kalt vatn eða heitt vatn. Þar undir eru vegamál. Þar undir er heilbrigðisþjónusta o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. en vil leggja áherslu á að sala fyrirtækisins og það að setja fyrirtækið á markað mun leiða til þess að verðlagning þjónustunnar hækkar. Það gefur augaleið. Menn gera arðsemiskröfur. Við megum ekki ganga að því neitt gruflandi að sala fyrirtækisins mun leiða til þess að menn vilja fá betri afkomu og verðið mun hækka. Þetta teljum við vonda þróun, slæma sýn og viljum leggja okkar af mörkum hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til að gera hv. þingmönnum og hæstv. ríkisstjórn grein fyrir því að hér er verið að fara inn á óheillabraut með eina af mikilvægustu grunnþjónustustoðum landsins.