Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:55:38 (1051)

2003-11-03 16:55:38# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Frv. sem hér er til umræðu fjallar um að fjármálaráðherra fari með hlutabréf í Landssíma Íslands í stað samgönguráðherra. Ég held að við sem hér erum séum í meginatriðum sammála um þá breytingu. Ég vil taka það skýrt fram að hér er ekki verið að fjalla um sölu Landssímans. Það er umræða sem tekin verður síðar.

Í umræðunni sem fram hefur farið í dag hefur mikið verið kallað á okkur framsóknarmenn og okkur borið á brýn að við hefðum sagt fyrir kosningar að við vildum ekki selja Símann. Sú ákvörðun var tekin á síðasta kjörtímabili. Sjálfur stóð ég í þeirri meiningu í kosningabaráttunni að sú ákvörðun hefði verið tekin. Lagaheimildin liggur fyrir. Það er búið að taka þetta vald af þinginu og framselja framkvæmdarvaldinu. Ég held að menn deili ekki um að þessi lagaheimild hefur legið fyrir og lá fyrir fyrir kosningar.

Hvað varðar umræðu um uppbyggingu á dreifikerfinu þá tek ég undir áhyggjur margra hv. þingmanna hvað það varðar. Við verðum að standa vörð um dreifikerfið og byggja það upp. Það er trúlega eitt mesta byggðamál samtímans að byggja upp öflugt dreifikerfi um allt land. Það er eitt stærsta byggðamál hinna dreifðu byggða.

Hvað varðar einkavæðingu og söluna á Landssímanum þá verðum við líka að tryggja að samkeppnisumhverfið sé fyrir hendi þegar af sölunni verður. Mér skilst að samkvæmt fjarskiptalögum eigi allir að eiga jafnan aðgang að dreifikerfinu. Ég segi það hér sem mína skoðun að það verður að vera vel ígrundað hvernig samkeppnisumhverfið skuli vera þegar að sölunni kemur. En ég er stuðningsmaður sölu Landssímans. (Gripið fram í: Í heilu lagi?) Í heilu lagi, já. Ég hef ekki farið í grafgötur með það. Ég tel að ríkið eigi ekki að vasast í samkeppnisrekstri, keppa við einkaaðila á markaði. Ég verð að segja, miðað við málflutning Samf. í dag, að ég átta mig ekki alveg á stefnu þeirra varðandi Landssímann. Mér finnst sumir hv. þm. þeirra tala jafnvel gegn sölu Landssímans. Ég get ekki skilið það öðruvísi.

Ég vil benda á annað. Aðilar á markaði hafa sagt að nú sé lag. Það er mjög gott ástand á markaðnum ef svo má segja. Við megum búast við að fá mikið og gott verð fyrir Landssímann. Ástandið er mun betra en fyrir tveimur eða þremur árum þegar tilraun var gerð til að selja Landssímann. Ég held að það hafi reynst okkur heilladrjúgt að fresta þeirri sölu.

Afstaða Framsfl. í þessu máli er mjög skýr. Hún hefur verið skýr og var skýr fyrir kosningar. Við tókum þá ákvörðun á síðasta kjörtímabili að selja Landssímann. Það eru útúrsnúningar og ekkert annað að halda öðru fram en að við höfum verið búnir að ákveða þetta fyrir kosningar. Sú ákvörðun lá ljós fyrir. Ég veit ekki betur en að margir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðu talað mjög í þá átt fyrir kosningar að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn væru búnir að taka þessa ákvörðun. Við fórum ekkert í grafgötur með það.

Ég held að afstaða Framsfl. í þessu máli liggi fyrir. Ég tek samt fram enn og aftur að við erum einungis að tala um mjög litla breytingu, þ.e. að færa hlutabréfin frá samgrh. til fjmrh. Svo munum við væntanlega taka aðra umræðu síðar um sjálfa söluna á Landssímanum.