Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:06:39 (1055)

2003-11-03 17:06:39# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona og tel að við séum sammála um það, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að við viljum efla grunnnetið og leggja meiri fjármuni í að byggja upp öflugt grunnnet um allt land, það er stórkostlegt byggðamál. Með sölunni munum við vonandi fá meira fjármagn til þess að byggja það grunnnet upp.

Svo finnst mér merkilegt að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon gagnrýna það að Framsfl. skuli ekki hafa auglýst meira í kosningabaráttunni. Áttum við að vera með sérstaka herferð í að auglýsa stefnu okkar í Landssímamálinu? Ég man ekki betur en að á hverjum einasta fundi sem ég var með honum á þá byrjaði hann yfirleitt mál sitt á því að býsnast yfir þeim miklu peningum sem Framsfl. hafði úr að spila og öllum þessum glamúrauglýsingum okkar. (SJS: Hvaðan komu þeir?) Svo kemur það í ljós að Framsfl. auglýsti ekki mest í kosningabaráttunni. (SJS: Næstmest?) Hann auglýsti ekki næstmest, heldur var hann bara í miðjunni eins og honum einum er lagið.

En ég held að niðurstaða orðaskipta míns og hv. þm. sé sú að við erum sammála um það að við viljum byggja upp dreifikerfið víða um land og efla þjónustu við íbúa í hinum dreifðu byggðum.