Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:28:29 (1058)

2003-11-03 17:28:29# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Er hv. þm. Össur Skarphéðinsson hugsanlega að rangtúlka hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann talar um markaðsvæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar? Ég heyrði ekki betur og las ekki annað (Gripið fram í.) í fjölmiðlum, í Morgunblaðinu m.a. --- það var sjálfur ritstjórinn sem sat fund Samfylkingarinnar --- en að nákvæmlega þetta hefði verið sagt, að það ætti að notast við markaðsmekanisma, markaðslögmálin, innan heilbrigðisþjónustunnar. En nú gerist það náttúrlega eins og gerðist með Landssímann á sínum tíma að menn þykjast hafa verið að meina eitthvað allt annað. ,,Þetta er ekki einkavæðing. Þetta er einkaframkvæmd. Þetta á að skoða og þetta á að athuga. Og síðan á að skrifa bók.`` En væri ekki nær að byrja á því að skoða og athuga og komast síðan að niðurstöðu? Niðurstaðan var gefin í upphafi þings Samfylkingarinnar um að nú bæri að fara leið markaðsvæðingar innan heilbrigðisþjónustunnar.

Mér finnst grundvallaratriði að menn tali heiðarlega og menn tali skýrt. Það gerði formaður Samfylkingarinnar og ég kann honum þakkir fyrir það. Mér finnst það gott. Mér finnst þessi boðskapur hins vegar slæmur frá flokki sem vill kenna sig við félagshyggju, að fara að daðra við markaðshyggjuna, við Verslunarráðið, þegar kemur að heilbrigðisþjónustu landsins. Það finnst mér dapurlegt.