Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:33:23 (1061)

2003-11-03 17:33:23# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða um þennan tilflutning á hlutabréfinu frá hæstv. samgrh. yfir til hæstv. fjmrh. en vegna þeirrar orðræðu sem fram fór hér á undan get ég ekki annað en vakið athygli á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur dottið í þá gryfju sem margir gera stundum, þ.e. að fullyrða aðeins, kynna sér ekki málið og fara ekki yfir það sem sagt var. Það sem hv. þm. sagði hér í stólnum áðan var langt frá því sem fram kom á fundi Samf.

Á fundinum kom einnig fram að aldrei yrði ráðist í neinar breytingar sem gerðu það að verkum að ekki hefðu allir aðgang að sömu þjónustu. (Gripið fram í.) Það eru sömu grundvallaratriði sem lagt er upp með, hv. þm., og verið hefur. Ég held, virðulegi forseti, að ekki sé óskynsamlegt í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur og þeirrar útgjaldaaukningar sem verið hefur í heilbrigðiskerfinu, án þess kannski að það skili okkur meiru en verið hefur, en við skoðum alla möguleika. Ég er einfaldlega þannig gerður að ég er ekki viss um að fortíðin hafi svör við öllu hvað varðar framtíðina. Ég held að mikilvægt sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson hugleiði mjög vandlega hvort fortíðin hafi gefið af sér öll svörin. (ÖJ: Eigum við ekki að skoða nútíðina og reynsluna?) Það er því mikilvægt að hv. þm. fari vandlega yfir það sem sagt var í stað þess að standa hér með hástemmdar yfirlýsingar sem því miður fyrir hv. þm. eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. (ÖJ: Ég mundi fagna því.) Ég hvet hv. þm. til þess að fara yfir það. Þó að Morgunblaðið hafi tekið að sér það hlutverk að túlka það sem þar var sagt er ástæðulaust fyrir hv. þm. að detta í sömu gryfju.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er verið að fara yfir og ræða frv. um flutning á hlutabréfi því sem ríkið á í Landssímanum og verið hefur í vörslu hæstv. samgrh. og verið er að flytja til hæstv. fjmrh. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þessa leið eigi að fara. Ég, ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, flutti í tvígang frv. nákvæmlega sama efnis árið 1999 og árið 2001 sem reyndar byggði að mestu á sömu sjónarmiðum og það frv. sem hér er lagt fram, þ.e. að skynsamlegt væri að það sé ekki sami aðili sem fari með hlutabréfið og hafi einnig með eftirlit á markaðnum að gera. Í grg. sem fylgdi með frv. kemur þetta mjög glögglega fram.

En á þeim tíma, virðulegi forseti, var þeirri leið hafnað. Meiri hluti Alþingis taldi ekki ástæðu til að fara þá leið og er í sjálfu sér ekkert um það að segja. Þess vegna hljóta spurningar að vakna þegar ákveðið er að fara þessa leið. Hvað veldur því að menn vilja fara þá leið núna?

Er það vegna þess að eins og haldið hefur verið á málum telji ríkisstjórnin heppilegra, vegna hugsanlegra sölutilburða sem kunna að vera uppi á næstu vikum eða mánuðum, að hæstv. fjmrh. haldi um þetta mál í stað þess að hæstv. samgrh. geri það? Vegna þess að þau rök sem borin eru fram hafa verið borin fram á hinu háa Alþingi fyrr og slík sjónarmið hafa verið sett fram. Það hefur ekkert breyst í lagaumhverfinu eða umhverfinu frá því að þau frumvörp voru lögð fram eins og veruleikinn er í dag. Það er ekkert í umhverfinu sem gerir það að verkum eða skýrir það af hverju þetta er gert núna en var ekki gert á sínum tíma annað en að það ætlunarverk hefur ekki tekist að selja Landssímann. Ég held að mikilvægt sé að þessi sjónarmið liggi fyrir, virðulegi forseti, í umræðunni. Það er a.m.k. ekki að sjá að önnur skýring sé á þessu en sú að hæstv. samgrh. hafi ekki tekist vel upp í þeirri tilraun sinni að selja bréfið í Landssímanum.

Hins vegar er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni áðan að þetta mál, þ.e. sala Símans, kemur ekki aftur fyrir þingið. Umboð þingsins til handa ríkisstjórninni liggur þegar fyrir að selja Símann. Í rauninni er þetta einasta tækifærið til að ræða sölu Símans og ræða hvort sú hugmynd sem gengið hefur ljósum logum og verið kannski meginstef hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. að selja Símann í einu lagi, sé heppileg og til þess fallin að efla fjarskiptamarkaðinn til lengri tíma litið.

Við í Samf. höfum haft uppi þau sjónarmið að við erum tilbúin að styðja það að ríkisvaldið selji ákveðna þætti sem lúta að rekstri þar sem samkeppni er fyrir. Hins vegar hefur umhverfið breyst dálítið, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á í ræðu sinni, frá því að þessir hlutir voru til umræðu hér fyrir nokkrum árum. Fækkað hefur á markaðnum, það hefur verið sameining sem hefur gert það að verkum að eins og málin standa nú er hugsanlega í uppsiglingu hið dæmigerða íslenska módel, þ.e. að tvö fyrirtæki verði á markaðnum. Ég held að það sé ekki djúpt í árinni tekið þó að fullyrt sé að tvö fyrirtæki á markaði eru ekki mjög líkleg til þess að tryggja samkeppni til lengri tíma litið. Það er langur vegur þar í frá og við höfum mýmörg dæmi þess á Íslandi að það hafi ekki tekist og jafnvel þó að þau væru þrjú, eins og nýleg dæmi sanna og þarf svo sem ekki að fara langt aftur til að rifja upp fræg grænmetismál og þær ásakanir sem uppi eru nú á hendur olíufyrirtækjum og tryggingafyrirtækjum. Hið dæmigerða íslenska módel með fáum stórum fyrirtækjum á íslenskan mælikvarða hefur ekki skilað þeirri samkeppni sem við hefðum viljað sjá. Þess vegna, virðulegi forseti, held ég að ef uppi eru hugmyndir um að selja fyrirtækið í heilu lagi geti það skaðað mjög þróun á fjarskipta- og hugbúnaðarsviði þegar til lengri tíma er litið.

Ég held, virðulegi forseti, að lykilatriðið í því, komi til þess að þetta gangi eftir, sé að grunnnetið verði tekið frá. Það tryggir öllum aðgang að grunnnetinu sem er stór hluti í verðmætum fyrirtækisins og það tryggir kannski að smærri og litlir aðilar geti komist inn á þennan markað og einbeitt sér að ákveðnum sviðum þar og tryggt að menn hafi aðgang að markaðnum í gegnum grunnnetið. Þegar hæstv. samgrh. kom upp í ræðustól áðan og fullyrti að komin væri samkeppni á þessu sviði vegna þess að einhverjir væru búnir að leggja ljósleiðara yfir hálendið þá dugar það engan veginn, virðulegi forseti, því að meginsamkeppnin felst í því að ná til neytenda. Það þarf enginn að segja mér að einhver sé að fara að grafa skurði inn í öll hús í landinu til að leggja nýjar heimtaugar. Það er einfaldlega ekki uppi á borðinu. Og það er einfaldlega þannig að framfarir í tækni á þessu sviði hafa gert það að verkum að gamli koparinn sem hefur reyndar fyrir löngu verið afskrifaður hefur nýst mjög vel og með auknum framförum í nýtingu á endabúnaði hefur verið hægt að nota hann miklu meira en nokkurn mann óraði fyrir.

Virðulegi forseti. Það er a.m.k. skoðun þess sem hér stendur að miklu frekari rök þurfi til að réttlæta það að selja Símann í einu lagi.

Þá óhjákvæmilega, virðulegi forseti, kemur til þess, ef menn ætla að fara þá leið að skapa hér hið dæmigerða íslenska módel, þ.e. með tveimur fyrirtækjum, að lykilatriðið væri til að tryggja eðlilegan rekstur, eðlilega verðmyndun og eðlilega samkeppni að þeir aðilar sem eiga að hafa eftirlit með þessu yrðu efldir til mikilla muna, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun. Ég held að ég taki heldur ekki djúpt í árinni hvað það varðar að núv. ríkisstjórn hefur ekki sýnt mikinn vilja til að efla þessar eftirlitsstofnanir, það hefur hún ekki gert. Hún er því ekki líkleg til að reyna að skerpa þennan þátt málsins ef hún heldur til streitu þeirri ákvörðun sinni að fara þá leið að selja Símann í einu lagi.

Að sama skapi held ég að ef sú hugmynd sem birtist í ræðu hæstv. forsrh. og hann vakti athygli á að alltaf væri þó möguleiki fyrir þingið að grípa inn teldu menn að verðþróun og þróun á þessum markaði væri ekki með þeim hætti að það nýttist landsmönnum, þá er það í eðli sínu miklu erfiðari og þyngri aðgerð en ef menn hafa ákveðið vald á þeim þáttum sem mestu skipta í þeirri þróun. Ég held að það væri miklu skynsamlegra, virðulegi forseti, að ganga hægar um þær dyr og reyna að tryggja að menn nái þeim markmiðum sem að er stefnt.

[17:45]

Ég vænti þess líka, virðulegur forseti, að í þessari umræðu kæmu fram sjónarmið um það hjá hæstv. ríkisstjórn, ætli hún að halda áfram á þeirri leið að selja Símann í einu lagi, hvaða kröfur hún geri um verð á Símanum. Fyrir nokkrum missirum hafði ríkisstjórnin uppi hugmyndir um að selja Símann í heilu lagi á 42 milljarða en markaðurinn svaraði því þannig að hann hefði ekki áhuga. Nú hafa heyrst tölur eins og 35--40 milljarðar fyrir Símann en manni virðist einnig að markaðurinn hafi ekki neinn áhuga á því heldur. Ég held að það sé mikilvægt að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því á hinu háa Alþingi, vegna þess að þetta mál mun mjög ólíklega koma aftur til umræðu í þinginu nema í sérstökum utandagskrárumræðum eða öðru slíku, hvaða verðhugmyndir menn hafi um Símann því það mun vissulega skipta miklu máli hvaða hugmyndir menn hafa á þessu sviði, þó ekki væri nema að menn segðu að þeir mundu aldrei selja Símann undir einhverju tilteknu verði. Það er nú einu sinni Alþingi sem fer með löggjafarvald, a.m.k. að forminu til, hér á Íslandi og það væri mikilvægt að Alþingi yrði gerð grein fyrir þeim áherslum og þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur uppi í þessu tiltekna máli.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það sem mína skoðun að ég styð það að þetta hlutabréf verði fært frá hæstv. samgrh. til hæstv. fjmrh. Ég held að það sé miklu eðlilegra og skynsamlegra að hæstv. fjmrh. fari með hlutabréf að því er varðar eignir ríkisins og viðkomandi stjórnarflokkar geta þá rætt það sín á milli hverjir fái að tilnefna í stjórnir þessara félaga, sem menn hljóta að geta lent með einhverjum hætti. En aðalatriðið er að það sé eðlilegt að fjmrh. fari með þetta hlutabréf. Hins vegar, eins og ég vakti athygli á í upphafi, hefur svo sem ekkert breyst frá því að þessar sölutilraunir áttu sér stað til dagsins í dag sem skýrir það að menn geri þetta nákvæmlega núna.

Hins vegar kom fram í andsvari eftir framsögu hæstv. forsrh. fyrirspurn um það hvað hæstv. ríkisstjórn hygðist gera að því er varðar önnur félög í eigu ríkisins, og var reyndar sérstaklega spurt um Landsvirkjun, og hæstv. forsrh. gerði ákveðna grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar eru. En það má vissulega spyrja um fleiri félög eins og t.d. eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sem er hlutafélag. Og það má spyrja hvort hugmyndin þar sé að færa það tilnefningarvald til hæstv. fjmrh. og hvort þetta sé almenn stefnumótun.

Það má kannski rifja það einnig upp hér, af því að hæstv. forsrh. taldi að á sínum tíma hefði kannski verið æskilegra að færa hlutabréf sem var í höndum viðskrh. yfir til fjmrh. eftir stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Það vill nú þannig til að frv. þess efnis var flutt hér í tvígang á hinu háa Alþingi, þ.e. af þeim sem hér stendur og hv. fyrrv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, sem flutti einnig með mér frv. um að færa bréf ríkisins í Landssímanum yfir til fjmrh. Þannig að það er svo sem ekkert nýtt í þessum efnum. Ég tel hins vegar, einfaldlega vegna þess að Alþingi hefur nú þegar samþykkt umboð til ríkisstjórnarinnar um að fela henni að selja Landssímann, að það væri mikilvægt að í þessari umræðu kæmu fram ákveðin sjónarmið sem skýrðu stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég held að það væri kurteisi og virðing við þingið að þinginu yrði gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem væru uppi hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli.