Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:49:28 (1062)

2003-11-03 17:49:28# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fræðast hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem sat þing Samfylkingarinnar. Ég átti ekki annarra kosta völ en að fylgjast með þinginu í fjölmiðlum. Birtir voru úrdrættir úr ræðu formanns flokksins að ég held í öllum blöðum landsins og við fengum einnig fréttir á ljósvakamiðlunum. Og ég heyrði ekki betur, og það þótti reyndar öllum fjölmiðlum nokkur tíðindi, þegar formaður flokksins talaði um að greiða götu markaðsaflanna innan heilbrigðiskerfisins, að við ættum að nýta okkur markaðinn innan þess.

Hins vegar var hann með nákvæmlega sömu uppsetningu á þessu og Verslunarráðið og Sjálfstfl. hefur verið með í seinni tíð, að leggja áherslu á jafnt aðgengi allra að þjónustunni. Það sem væri nýtt væri að Samf. legði ekki neitt upp úr því hvort þjónustan væri samfélagslega rekin eða hvort einkaaðilar gerðu það. Og ég heyrði ekki betur en hv. þm. væri að finna að því við mig þegar ég gagnrýndi þetta, að ég horfði til fortíðar þegar ég var að tala um reynslu annarra af þessum kerfisbreytingum.

Mig langar til að biðja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að skýra fyrir mér í hverju minn misskilningur er fólginn.