Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:51:20 (1063)

2003-11-03 17:51:20# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig með hv. þm. Ögmund Jónasson, sem oft og tíðum flytur hér ágætar innblásnar ræður, að hann á það kannski til á köflum að missa sig örlítið í umræðunni.

Í þeirri ræðu sem hv. þm. fjallaði um þetta mál hér áðan talaði hann um að Samf. væri gengin til liðs við Verslunarráðið og öll helstu frjálshyggjusamtök og -öfl sem fyrir mætti finna í landinu. Það er langur vegur frá því. Þetta var túlkun hv. þm. og ég mótmælti henni harðlega.

Það er hins vegar þannig að flestar þjóðir á Vesturlöndum eru að takast á við þetta verkefni, þ.e. þá miklu þenslu sem hefur verið í heilbrigðisgeiranum. Og það er þannig hjá okkur að það eru margvísleg rekstrarform í núverandi kerfi. Formaður Samf. var í sinni ræðu fyrst og fremst að setja þetta mál á dagskrá og setti það upp þannig að menn færu að vinna að því með skipulegum hætti hvort það mætti gera þetta á annan hátt en verið hefur. Þetta er kjarninn í ræðu formanns Samf., hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Þetta var það sem hann sagði. Hann nefndi það aldrei að hann ætlaði að ganga til liðs við Verslunarráðið og þær hugmyndir sem þar eru, hvað þá önnur frjálshyggjuöfl sem hafa verið að fjalla um þessa þætti, aldrei nokkurn tíma, heldur fyrst og fremst að setja þessa umræðu á dagskrá.

Það kemur mér dálítið á óvart að hv. þm. skuli bregðast svona hastarlega við að á dagskrá séu sett mál sem flestar þjóðir eru að fjalla um. Sumar hafa brugðist við á þann hátt sem hv. þm. fór yfir hér áðan og taldi að illa hefði tekist til. Aðrar hafa kannski gert það á annan hátt. En þetta var allt og sumt sem var í þessari ræðu. En síðan voru það (Forseti hringir.) ákveðnir fjölmiðlar sem tóku að sér að túlka það með þeim hætti sem þeir gerðu.