Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:58:10 (1066)

2003-11-03 17:58:10# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÁF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er löngu tímabært frv. Það er í alla staði óeðlilegt að sá sem hefur forræði yfir Póst- og fjarskiptastofnun skuli á sama tíma halda hlutabréfi í því fyrirtæki sem er hvað öflugast og fyrirferðarmest á markaði. Ég tel að þetta frv. sé vísbending um að það séu að verða til skýrari reglur um afskipti og aðkomu hins opinbera að viðskipta- og athafnalífi.

Mikið hefur verið rætt hér í dag um þjónustuhlutverk Landssímans. Það er vissulega mjög mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar að einkafyrirtæki geti ágætlega veitt þjónustu og hafi gert það um langan tíma. Því styð ég hugmyndir um einkavæðingu Landssímans. En við verðum að hafa í huga hver markmið einkavæðingar eru. Þau eru ekki síst að auka samkeppni á þessum markaði og með þeim hætti að bæta þjónustuna, en á sama tíma er líka blásið lífi í þessa atvinnustarfsemi sem vissulega skiptir mjög miklu máli hvað varðar framþróun atvinnulífs hér á landi. Við ætlum jú að byggja atvinnutækifæri okkar í framtíðinni ekki hvað síst á tækni og nýjungum á því sviði. En þegar markmiðið að auka samkeppni er skoðað er mjög mikilvægt að hafa í huga hver hlutur grunnnetsins er sem hefur verið hér til umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að aðskilnaður grunnnets og rekstrarkerfa sé einmitt heppilegur til þess að auka samkeppni, til þess að bæta þjónustuna á þessu sviði. Þannig er að fylgi grunnnetið þeim aðila sem kaupir þetta fyrirtæki þá er viðhaldið þeirri einokun á grunnnetinu sem er við lýði í dag. Viðkomandi aðila sem rekur grunnnetið ber lögum samkvæmt skylda til þess að veita aðgang að því en hann hefur aðrar leiðir til þess að gera samkeppnisaðilum sínum erfitt fyrir og hann gerir það í gegnum gjaldskrá. Samkeppnisaðilar Landssímans í dag hafa haft uppi þau orð að einmitt með þeim hætti hafi Landssíminn unnið gegn samkeppni. Það þjónar því ekki einvörðungu þeim tilgangi að halda uppi góðri og öflugri þjónustu Landssímans við alla íbúa landsins að skilja að grunnnet frá rekstrarkerfum, það þjónar einnig markmiðum samkeppni og það þjónar einnig því að bæta þjónustu og efla þessa starfsgrein hér á landi.