Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:15:18 (1069)

2003-11-03 18:15:18# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hafa tekið undir frv. sem hér hefur verið kynnt. Það er ekki mikið að vöxtum en menn hafa lýst yfir stuðningi við það og fært fyrir því rök.

Ég átti von á því í upphafi að umræðan um þetta mál yrði ekki mjög löng og efnismikil. Sjálft frv. gaf a.m.k. ekki tilefni til þess. Hér hafa síðan verið fjörlegar umræður og gagnlegar á marga lund, sumar næsta óvæntar og sveiflukenndar. Það var fundið að því við mig fyrr í umræðunni af virðulegum forseta að ég væri að nefna Samf. til sögunnar. Ég tel að miðað við umræðuna sé mér það óhætt eins og hinum, miðað við það hvernig þetta mál hefur þróast.

En fyrst út af Símanum. Spurt var um hvaða markaðsvirði eða merkimiða ríkisstjórnin setti á Símann. Það hefur engin ný ákvörðun verið tekin í þeim efnum umfram það sem áður hafði verið kynnt og menn þekkja og engin áform hjá ríkisstjórninni umfram þau sem áður voru fyrir hendi, að selja ekki Símann nema tilhlýðilegt og viðunandi verð fengist fyrir hann. Sú stefna er óbreytt.

Síðan þróaðist þessi umræða mjög út í að skilgreina stöðu og stefnu Samf. í heilbrigðismálum. Það var mjög athyglisverð umræða og áhugaverð á alla lund. Nú er það svo með okkur stjórnmálamenn, sem lengi höfum verið í þeim störfum, að við lendum allir í því, kannski misoft, að þurfa að éta eitthvað ofan í okkur. Það er ekki mjög lystugt en við látum okkur hafa það ef það er algerlega nauðsynlegt. En það er sjaldgæfar að menn komi og éti ofan í aðra það sem þeir hafa sagt. En það gerðist núna í þessum sal þegar tveir hv. þingmenn, hv. þm. Helgi Hjörvar og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, voru að útskýra ræðu formanns Samf. á landsfundi þess ágæta flokks. Ég horfði á hann sjálfan í sjónvarpi lýsa þessu og ekki fyrir milligöngu neins annars, fjölmiðla eða slíkra, heldur bara beint eins og þetta kom af skepnunni. Þá meina ég þetta auðvitað með virðulegum hætti að sjálfsögðu.

Ég þóttist hafa skilið ræðuna sem þar var flutt svo að hún væri merkileg og verðskuldaði þá athygli sem fjölmiðlar sýndu henni, þarna væri verið að hverfa til nýrrar stefnu. Ég heyrði ekki neitt sagt þar af formanni Samf. sem ekki hefði mælst ákaflega vel fyrir á landsfundi Sjálfstfl. Þessu hefði öllu verið vel tekið og ég vona að það dragi ekki úr gleði manna með ræðuna. Það er hrós af minni hálfu að lýsa því yfir að ræðunni hefði verið feiknalega vel tekið af landsfundi Sjálfstfl. Auðvitað hefðu verið einn til þrír menn þar sem mundu telja að þar væri gengið of langt eins og verða vill.

Síðan gerðist það að tveir hv. þingmenn fóru að leiðrétta ræðuna. Í rauninni gáfu þeir til kynna að fjölmiðlar hefðu misskilið þetta allt og þetta væri ekkert merkilegt og einhverju allt öðru hefði átt að slá upp úr þessari ræðu. Þar átti ekki neitt markvert að hafa gerst.

Annar hv. þm. sem ég nefndi áðan til sögunnar sagði að þetta væri bara lýsing á því ástandi sem væri í raun, bara atvikalýsing á þjóðfélaginu hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samf. Ég fór að verða fyrir vonbrigðum og var eiginlega ráðinn í að skoða þetta upp á nýtt, hvort ég hefði ekki misskilið ræðuna. En síðan kom ágætur hv. þm. sem síðast talaði, hv. þm. Einar Karl Haraldsson, og þá lagaðist textinn aftur. Ég heyrði ekki betur en þá kæmi nákvæmlega það sama fram og fram kom í máli Össurar Skarphéðinssonar þannig að ég gladdi mig við að ég hefði ekki misskilið eitt eða neitt og ræða hans hefði líka mælst ákaflega vel fyrir á landsfundi Sjálfstfl. (EKH: Enda hlustaðirðu á alla ræðuna.) Af athygli, já, já.

Þetta gleður mig vegna þess að allt breytist með tímanum. Það segi ég vegna þess að ég og hv. þm. sátum hér uppi í búrinu samhliða í eitt eða tvö ár, ég sem þingfréttaritari Morgunblaðsins og hann Tímans. Við hefðum ekki ímyndað okkur að við ættum eftir að sitja í þessum sal saman og ræða mál af þessu tagi. En þetta hefur gerst hér og nú, að ég er farinn að trúa því að skilningur okkar sem hlustuðum á formann Samf. og skilningur fjölmiðlamanna, að hér væri um markverða stefnubreytingu að ræða, sé réttur en skilningur þeirra hv. þm. Helga Hjörvars og Lúðvíks Bergvinssonar hafi ekki verið réttur. Ég er hálffeginn því.

Það er mjög þýðingarmikið að Samf. sé komin á þetta ról. Ég fagna því. Við höfum haldið þessu fram í háa herrans tíð, sjálfstæðismenn. Ég sný ekki til baka með það. Ef ég hefði haldið svona ræðu á landsfundi Sjálfstfl. og hún verið gerð að aðalmáli þá hefði ég fengið á mig utandagskrárumræðu frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sjálfsagt líka frá hv. þm. Helga Hjörvar og ég veit ekki hverjum. Það hefði orðið mikið fjör, mikil skemmtun. (Gripið fram í: Ögmundi Jónassyni líka.) Og svo Ögmundi Jónassyni hinum megin frá --- já, af mikilli hörku.

En nú þarf ég ekki að halda slíka ræðu. Nú er komið slíkt ofurefli liðs með þessa stefnu. Það er fagnaðarefni fyrir mig. Að öðru leyti vil ég halda mig við málið sem ég bar hér fram og fagna því. Það virðist góður efnislegur stuðningur við málið þó að menn hafi síðan, ekki óeðlilega, fjallað um ýmsa þætti er snúa að sölu Símans.