Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:24:30 (1072)

2003-11-03 18:24:30# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvaða tilgangi þetta þjónar í sjálfu sér. Við höfum sett þessi sjónarmið fram, komið þeim mjög skýrt fram og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þær hugmyndir sem þingmaðurinn sem vitnað var til áðan hefur sett fram hafa lítið sem ekkert með það að gera sem við höfum sett fram núna um helgina. Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það.

Það gleður mig hins vegar og segir kannski meira um þann mikla styrk sem Samf. hefur og trúverðugleik hennar hjá þjóðinni, að um leið og formaður flokksins setur tiltekið mál á dagskrá þá vekur það svo mikla athygli að það gegnsýrir alla umræðu um skeið. Jafnvel þegar menn eins og hæstv. forsrh. ganga í að færa hlutabréf milli ráðuneyta þá virðist ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar yfirgnæfa það verkefni. Enda er, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, eðlilegt að styðja við ríkisstjórnina í því tilviki.