Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:30:12 (1078)

2003-11-03 18:30:12# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég trúi að það gleðji hæstv. forsrh. að hann hefur fengið myndarlega umræðu um frv. sitt. Alþingi ræður málflutningsrétti sínum sjálft og hér brestur iðulega á eldhúsdagur eins og gengur. Það er að sjálfsögðu í samræmi við rótgrónar þinghefðir að svo lengi sem umræðan er innan viðeigandi marka hvað þingsköp, ræðutíma og annað snertir er ekkert nema gott um það að segja að stundum stýri umræðan sjálfri sér og berist inn á frjóar brautir. Hér hefur það gerst, upp hefur hafist þó nokkur umræða um í raun og veru grundvallarhugmyndafræði sem menn láta kannski of sjaldan eftir sér, að ræða út frá gefnu tilefni um grundvallaratriði eins og þau hvert hlutverk hins opinbera skuli vera og hvert hlutverk einkaaðila þegar í hlut á mikilvæg almannaþjónusta eins og hér sannanlega er til umræðu, þ.e. fjarskiptaþjónustan. Það er nærtækt að menn beri niður í öðrum hliðstæðum sviðum eins og t.d. orkumálum og heilbrigðisgeiranum.

Ég verð að vísu að gera þá athugasemd að mér finnst það til marks um upphafinn hégómaskap og eitthvert misskilið álit manna á sjálfum sér að halda að þeir geti slegið eign sinni á það að koma sumum af mikilvægustu málaflokkum samtímans á dagskrá með því að fjalla um það í einni ræðu. Sá draugagangur hefur mikið verið uppi í Evrópuumræðunni að einhverjir tilteknir menn eigi einkarétt á því að þeir komi þeirri umræðu á dagskrá sem hefur verið linnulaus á Íslandi í 30--40 ár, spurningunni um tengsl okkar í vaxandi samstarfi þjóða á meginlandi Evrópu.

Alveg eins er þetta með heilbrigðismálin. Mér finnst með ólíkindum ef menn reyna í alvöru að segja að nú séu þau stóru tímamót að verða að heilbrigðismál séu að komast á dagskrá í þjóðmálaumræðu á Íslandi af því að einn flokkur, þótt merkur sé, fjallar eitthvað um þau á landsfundi sínum. Ég man bara ekki betur en að hvert einasta ár séu hér miklar umræður um þetta mikilvæga svið þjóðmála okkar sem tekur um 40% af íslenskum fjárlögum, útgjöld heilbr.- og trmrn. Sú umræða er eðlileg og sjálfsögð.

Það sem ég tel, herra forseti, að hafi kannski verið markverðast við þessa umræðu er að hún hefur á köflum farið upp úr þröngum farvegi fjarskiptanna og spurningarinnar um framtíð Landssímans og snúist um grundvallarhugmyndafræði. Þá er auðvitað stutt í þær kennisetningar sem mjög hafa riðið húsum í vestrænum stjórnmálum sl. 20 ár eða svo, nýfrjálshyggjuna, thatcherismann sem einkavæðingin er óaðskiljanlegur hluti af, og því er eðlilegt að það beri á góma hér. Það er auðvitað staðreyndin að úr smiðju nýfrjálshyggjunnar, thatcherismans, eru þessar einkavæðingarhugmyndir runnar. Þær komast á dagskrá í vestrænum stjórnmálum með valdatöku Margrétar Thatcher í Íhaldsflokknum í Bretlandi og Ronalds Reagans í Bandaríkjunum og þær verða hin leiðandi hugmyndafræði. Því miður verðum við vinstri menn að viðurkenna að svo hefur það verið um langt árabil.

Nú er að vísu sem betur fer svo komið að þessi hugmyndafræði er mjög á undanhaldi, t.d. í Bretlandi. Hver er þar í mikilli og vondri vörn með sín mál annar en lukkuriddarinn Tony Blair sem tók thatcherismann upp á arma sína og hefur reyndar gengið lengra í einkavæðingu þar í landi á mörgum sviðum heldur en nokkurn tíma járnfrúin sjálf? Nú sætir hann vaxandi gagnrýni og verður að kyngja því að t.d. borgarstjóri Lundúna hefur komist þar til valda í óþökk hans þótt flokksbróðir sé og fylgir þar allt annarri hugmyndafræði og er að almannavæða ýmsa þjónustu á nýjan leik sem komin var úr böndunum og hafði mislukkast gjörsamlega í einkavæðingunni.

Þá ber svo við, frú forseti, að uppi á Íslandi eins og stundum áður ganga eftirlegukindurnar ljósum logum. Gamlir draugar ríða hér húsum þar sem thatcherisminn er, nýfrjálshyggjan, og við erum eins og stundum áður kannski 10 árum á eftir tímanum í þessum efnum. Þetta þykir enn boðleg hugmyndafræði hér þrátt fyrir allar ófarirnar sem menn hafa lent í og eru jafnvel að fá nýja liðsmenn eins og að hluta til úr Samf. sem glöggur maður hér úti í salnum benti mér á að væri kannski skyldust því af öllu sem fyrirbærið Heimdallur hefur boðað í þessum efnum. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að leggja formanni Samf. orð í munn, enda geta menn lesið þetta sjálfir. Ég hygg þó að ekki sé ósanngjarnt að segja að þarna hafi verið daðrað við markaðslausnir í heilbrigðiskerfinu. Ég ætla a.m.k. að láta það standa sem mína upplifun af þessu að þarna hafi verið daðrað á gáleysislegan hátt við markaðslausnir í sjálfum kjarna heilbrigðisþjónustunnar og það er ekki boðskapur sem hugnast mér. Svo mikið skal vera víst.

Varðandi fjarskiptaþátt umræðunnar á nýjan leik held ég að niðurstaðan þar sé sú að við höfum búið við tiltölulega gott ástand í þeim efnum í aðalatriðum. Það hefur að vísu verið gagnrýnt, og ég hef gert það, að Landssíminn hefði mátt standa betur að málum þar upp á síðkastið, hefði mátt beita afli sínu til þess að halda áfram að bæta fjarskiptakerfið, einkum úti um hinar dreifðu byggðir. Landssíminn hefur tekið að setja sér ýmsar reglur sem eru mjög íþyngjandi fyrir smærri byggðarlög, t.d. ákvæði um lágmarksfólksfjölda í þéttbýliskjörnum sem fái nýjustu og bestu tækni. Það er andstætt því þjónustu- og almannaviðhorfi sem ég tel að svona fyrirtæki eigi að hafa að leiðarljósi. Hvers eiga menn að gjalda ef þá vantar nokkra íbúa upp á 500 svo að þeir fá þá ekki t.d. ADSL-tengingu eða annað í þeim dúr, hvað það nú heitir?

Ég vil svo að lokum aðeins inna eftir nokkru eða bera fram ósk eftir atvikum, eftir því hvort hæstv. forsrh. sér sér fært að svara hér við lok umræðunnar eða ekki. Verði farið út í þá aðgerð að selja Landssímann, sem í sjálfu sér er ekki beint undir í þessu frv. en vofir yfir, skiptir miklu máli hvernig að sölunni verður staðið. Það hefur einnig kristallast í þessari umræðu og um það hefur verið spurt með ýmsum hætti. Hvaða aðferðir verða þá notaðar þegar eða ef farið verður inn á þá braut að reyna á nýjan leik að selja Landssímann? Verður þá reynt að tryggja dreifingu eignarhaldsins? Verður reynt að tryggja að eignarhaldið haldist innan lands? Verður þetta gert í einhverjum áföngum eða fyrirtækið selt í einu lagi? Kemur til greina að láta skilyrði eða kvaðir fylgja fyrirtækinu? Kemur til greina að hafa inni í því gullbréf, að ríkið eigi eitt hlutabréf upp á eina krónu sem fylgir fyrirtækinu um aldur og ævi og sé óaðskiljanlegt því, og þessu bréfi fylgi réttindi, fylgi möguleikar til að tryggja ákveðna hluti? Allt þetta er hægt að gera því að sem betur fer eru enn tækifæri til að ganga frá því með hvaða hætti þetta yrði gert.

Nú er mér ljóst að ríkisstjórninni ber ekki skylda til að fara með málið sem slíkt fyrir þing á nýjan leik, þ.e. lögin eru til staðar með heimildum sínum en þetta eru að sjálfsögðu bara heimildir. Það þarf ekki að beita þeim og ríkisstjórninni er ekkert að vanbúnaði ef hún vill sýna þinginu þá virðingu og tillitssemi í ljósi mikilvægis málsins að taka það hér inn. Því spyr ég að því eða vil bera fram þá ósk eftir atvikum að þegar einkavæðingarnefnd sem nú hefur hafið vinnu að þessu máli hefur komið sér niður á tillögu um það hvernig verði farið í þetta ef gert verður er ríkisstjórnin tilbúin til þess að taka þær tillögur inn til umfjöllunar á þinginu þannig að aðferðafræðin sjálf og áformin sem slík fái umfjöllun, að mönnum gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum fram, og eftir atvikum reyna að hafa áhrif með málflutningi sínum á gang málsins? Geysilega mikið er í húfi. Hér er um milljarðatugafyrirtæki að ræða í verðmætum talið og er það þó alls ekki aðalatriði málsins í mínum huga heldur hitt hversu gríðarlega mikilvægu hlutverki það gegnir og hversu afdrifaríkt það kann að reynast hvernig til tekst verði farið út á þá braut að einkavæða og selja fyrirtækið. Út af fyrir sig og burt séð frá því, hvort sem þetta verður gert nær eða fjær okkur í tíma, verður áframhaldandi rekstur Landssímans í einhverju formi gríðarlega mikilvægur sem slíkur vegna hlutverks fyrirtækisins á komandi árum og ég vil segja áratugum. Það er ekkert annað í sjónmáli og þess vegna er þetta mín síðasta ósk, herra forseti, í þessari umræðu.