Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:55:30 (1089)

2003-11-03 18:55:30# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Þetta er umræða um lítið lagafrv. sem hæstv. forsrh. hefur flutt. Hún hefur þróast út í venjulega eldhúsdagsumræðu og stendur enn núna þegar klukkan er að verða sjö og menn orðnir svangir og vilja fara að komast í kvöldmat.

Ég ætla aðeins að draga kvöldmatartímann og fara inn í þessa umræðu vegna þess að hún hefur verið um margt skemmtileg og ýmislegt annað hefur verið rætt en þetta litla frv. segir til um.

Eins og hér hefur komið fram er frv. þannig að við þingmenn Samfylkingarinnar getum stutt það enda hafa þingmenn Samfylkingarinnar áður flutt svona frv. um að flytja málið frá samgrn. til fjmrn. Ekkert nema gott eitt er um það að segja. Það er ekki stórmál. En þetta litla mál hefur sem sagt spunnið upp á sig og ýmislegt annað verið hér rætt. Umræðan hefur því eiginlega spunnist út í hálfgerðan eldhúsdag og ber náttúrlega að þakka sérstaklega fyrir það að hér skuli þessi mánudagsumræðutími á hinu háa Alþingi að mestu snúast um landsfund Samfylkingarinnar. Það er kannski eðlilegt vegna þess að þetta var í sjálfu sér mjög merkilegur fundur.

Þannig er það oft að þegar stjórnmálaflokkar halda landsfund þá er umræða mikil í framhaldi af því. Það er t.d. enn þá mikil umræða um landsfund Sjálfstfl. sem var haldinn fyrir kosningar og þá á ég við um samþykkt um línuívilnun sem hefur tröllriðið þessu þjóðfélagi hingað til, þ.e. hvað þar var sagt og hvað ekki. Þar voru líka boðaðar miklar skattalækkanir sem átti að kynna strax á fyrstu dögum þingsins. Þær skattalækkanir hafa hins vegar snúist upp í skattahækkanir. Þriðja málið á hinu háa Alþingi á þessu þingi snerist um skattahækkun upp á einn milljarð frá hæstv. ríkisstjórn. Ég á við bensínskattinn og þungaskattinn.

Síðan fá aftur aðrir flokkar mikla umræðu fyrir að halda sig langt aftur í fortíð. Þeir samþykkja ýmsa hluti og vilja halda sig við hluti sem eru löngu löngu komnir á öskuhauga í öðrum löndum en eru hér hafðir í hávegum. Ég á við ýmsar samþykktir Vinstri grænna. Ég verð bara að játa að ekkert kemur upp í huga minn núna hvað framsóknarmenn hafa verið að samþykkja upp á síðkastið. En það kannski skiptir ekki máli vegna þess að þegar aðalflokkurinn, Sjálfstfl., hefur ályktað eitthvað þá kemur B-deildin yfirleitt þar á eftir.

Það hefur líka komið inn í umræðuna hvort selja eigi Símann, hvenær og á hvaða verði. Sú umræða fór öll fram þegar það var rætt. Var það ekki bara á síðasta þingi fyrir kosningar? Það var mikil umræða hér um sölu Símans og ég tók þátt í henni þá. Skoðun mín hefur ekkert breyst síðan þá. Ég sat þá í hv. samgn. Ég var þeirrar skoðunar að það eigi þegar markaðsaðstæður eru góðar að selja samkeppnishluta Símans og ég var þeirrar skoðunar að það eigi að skilja grunnnetið frá og ekki selja það. Afstaða mín hefur ekki breyst.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, bara rétt til að árétta það, að rétti tíminn til að selja Símann hefur ekki komið hingað til. Ef til vill misstu menn af því tækifæri þegar uppgangurinn var sem mestur í þessum geira og símafyrirtæki úti seldust á háu verði. En það hefur kannski komið í koll mörgum fyrirtækjum þar á eftir og e.t.v. neytendum í hærri gjöldum. Ef til vill má líka horfa á það þannig að það hafi verið gott að hann seldist ekki vegna þess að það hefði getað komið í hausinn á okkur sem búmerang til baka í hærri gjöldum. Hvenær þessi tími kemur veit ég ekki. En ég tók eftir því áðan hjá hæstv. forsrh. sem flytur þetta mál fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar hvort --- ég ætla ekki og get ekki haft það nákvæmlega eftir --- hvort það er fyrir áramót eða á næsta ári. Hvenær sá tími kemur veit ríkisstjórnin ein og e.t.v. hafa einhverjir tjáð áhuga sinn á því að kaupa Landssímann og það er þá auðvitað á borði ríkisstjórnar hvenær það verður gert. En ég hygg og vona að allir hafi sömu skoðun á því að þegar selt verður þá fáist gott verð og ekki verði selt á neini brunaúsölu eins og leit út fyrir á sínum tíma þegar sala Símans og það söluferli var eiginlega tekið til baka.

[19:00]

Ég ætla svo að segja, herra forseti, um þetta að ég hef ákveðna skoðun á því hvað eigi að gera við þá peninga sem koma inn fyrir sölu Símans, a.m.k. stóran hluta. Ég held að þegar við Íslendingar seljum Símann, sem hefur verið byggður upp fyrir rekstrarfé almennings í landinu sem hefur borgað misjafnlega mikil símagjöld og vafalaust alltaf allt of mikil að því er fólki finnst, eigum við hiklaust að leggja þá peninga í að byggja nýjan landspítala. Með öðrum orðum, seljum Landssímann og byggjum landspítala. Þá held ég að hluti af þeim peningum sem fyrir Landssímann komi renni virkilega til góðs málefnis, mjög brýns málefnis, þ.e. að byggja við Landspítalann, enda skilst mér að flestir séu á því að byggja þar virkilega vel við þannig að setja megi alla starfsemi Landspítalans undir eitt þak. Ég hygg að það hái starfsemi Landspítala -- háskólasjúkrahúss mjög í dag að vera í tveimur aðskildum húsum. Mig langar að taka dæmi: Hjartadeild er rekin á öðrum staðnum en lungnadeild á hinum. Auðvitað sjá allir að þetta getur ekki gengið. Ég held að rétti tímapunkturinn fyrir okkur Íslendinga til að bæta úr ástandinu --- þetta kostar jú töluvert mikla fjármuni --- sé þegar við seljum Landssímann. Þess vegna vildi ég koma þessu sjónarmiði mínu og hugmyndinni hér á framfæri. Þá held ég að meiri sátt mundi skapast í þjóðfélaginu um sölu Landssímans, þ.e. ef peningarnir yrðu notaðir beint til að byggja jafngott og -mikið húsnæði eins og þarf yfir Landspítalann, og þá til langrar framtíðar þannig að allt geti verið þar undir einum og sama hattinum.

Þá kem ég að því sem ég nefndi áðan um sölu Landssímans: Á að selja grunnnetið frá eða ekki? Við í Samf. fluttum tillögu um það sem stjórnarliðar felldu á síðasta þingi. Við það situr. Við vöruðum þá við ýmsum þáttum sem margir hverjir hafa komið á daginn og sannast að hefur ekki verið gert, og hvernig verður það þá þegar búið verður að selja grunnnetið til einkaaðila? Ég er mjög ánægður með að hæstv. samgrh. sitji hér við þessa umræðu og jafnframt ráðherra byggðamála, hæstv. viðskrh., sem situr hér líka og er viðstödd þessa umræðu. Þetta snýst nefnilega að töluverðu leyti um byggðamál.

Það var mikið rætt og gagnrýnt þegar lögunum um Landssímann var breytt og sala heimiluð að grunnnetið færi með. Þá var það dregið mjög í efa að einkavætt fyrirtæki eða það fyrirtæki sem fengi Símann mundi ekki standa sig og þjóna hinum dreifðu byggðum landsins hvað varðaði t.d. að leggja ljósleiðara. Og nú hefur það skeð á því ári sem liðið er að Landssíminn hefur ekki staðið sig í stykkinu gagnvart ýmsum byggðarlögum og skal ég hér nefna enn á ný Raufarhöfn og Kópasker sem enn þá eru þannig í sveit sett að þau fá ekki að taka þátt í þessari byltingu sem hefur átt sér stað, með öðrum orðum var ljósleiðari ekki lagður til þeirra. Í svari hæstv. samgrh. til mín á síðasta þingi var það talið allt of dýrt en áætlað er að það kosti í kringum 32 millj. kr.

Það kemur líka í ljós að sjónvarpsstöðvar á Íslandi eru með miklar hugmyndir um stafrænt sjónvarp, að fara bara upp í gervihnetti og kasta sjónvarpsefni sínu þannig fram. Eftir þeim upplýsingum sem ég fékk um helgina þar sem þetta var rætt mikið hjá ákveðnum hópi manna. Það sem stendur framkvæmdinni fyrir þrifum er hversu dýrt ljósleiðarasambandið hjá Landssímanum er. Þegar þetta er svona núna hjá ríkisfyrirtækinu, þó að það sé háeffað, Landssímanum, hvernig verður það þá þegar einhverjir aðrir aðilar eru búnir að komast yfir fyrirtækið og gera kannski öðruvísi arðsemiskröfur?

Eitt í viðbót ætla ég að nefna sem ég ætla svo að tengja saman við Raufarhöfn og Kópasker, virðulegi forseti. Í Hrísey hafa menn ekki getað tekið þátt í þeirri byltingu sem hefur átt sér stað, menn sitja eftir og fá ekki að njóta sama hraða, ef svo má að orði komast, í ljósleiðara og öðru eins og allir vilja hafa í dag. Hygg ég að þingmenn geti hugsað aftur í tímann þegar þeir voru með minni hraða á heimastöðvum sínum til þess að ná m.a. í gögn frá Alþingi og til þess hraða sem þingmönnum er boðið upp á í dag. Í Hrísey hefur sem sagt verið gerð tilraun af einkaaðila til þess að netvæða, ef svo má að orði komast, eyjuna á nútímalegan hátt. Þar eru sett upp ákveðin tæki sem kasta geisla sínum upp í gervihnött sem fer síðan til Ítalíu og frá Ítalíu til Íslands í gegnum ljósleiðara --- og gæti þess vegna verið að sækja einmitt núna umræður frá Alþingi, hvað á dagskrá Alþingis verður í dag eða hvað hæstv. forsrh. hefur sagt í umræðunni í dag. Síðan fer þetta sömu leið til baka, þ.e. í ljósleiðara frá Íslandi til jarðstöðvar á Ítalíu, þaðan upp í gervihnött og frá gervihnetti norður til Hríseyjar. Og viti menn, stofnkostnaður við þennan búnað var í kringum 1.400 þús. kr., ekki meira en það. Þeir notendur sem taka þetta þurfa að vísu að greiða allan kostnaðinn sjálfir. Það sem meira er: Hríseyingar fá út úr þessu miklu meira, hraðara og betra samband en ADSL-tengingar sem við erum jú að reyna að koma í sem flest byggðarlög landsins í dag. Annað sem er ekki síður merkilegt: fyrir miklu minni pening.

Þetta er merkileg tilraun sem einstaklingar eru að gera í Hrísey fyrir eigið fé en ekki, eftir því sem ég best veit, með neinni þátttöku Landssímans eins og auðvitað er gert annars staðar. Og þá kemur að því að ræða um það hvernig menn ætla í framtíðinni að þjóna íbúum norðausturhorns landsins, þ.e. Raufarhöfn og Kópaskeri. Eins og ég sagði áðan --- gott að hæstv. ráðherra byggðamála er hér --- hefur það verið mikið umkvörtunarefni íbúa á Raufarhöfn í framhaldi af erfiðleikum sem þar sköpuðust í fiskvinnslu og með uppsögnum á fólki. Með skipun nefndar ráðherrans til að ræða um málefni Raufarhafnar stendur þar upp úr að vonandi leysist aðalmálið, þ.e. fiskvinnslan, og Raufarhafnarbúar eru heppnir að hafa fengið ungan athafnamann frá Húsavík þar í lið með sér --- en umkvörtunarefni sveitarstjórnarmanna á Raufarhöfn er það að ekkert hafi gerst í þessum málum sem ég nefni hér, að tengja Raufarhafnarbúa og Kópaskersbúa á nútímalegan hátt við netsamband. Þetta man hæstv. ráðherra að var rætt hér um daginn.

Nú ætla ég að stytta mál mitt vegna þess að það er komið of langt fram í matartímann en í framhaldi af þessu spyr ég hæstv. samgrh., sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni í þessari umræðu þó að hann flytji ekki þetta mál, hvort hann vilji beita sér fyrir því að Landssíminn taki á í þessum efnum, bæði hvað varðar Hrísey, Raufarhöfn og Kópasker, og athugi hvort Landssíminn geti aðstoðað við að taka þessa tækni upp á þessum stöðum. Ef þetta verður til þess að Landssíminn geti kannski sparað sér 30 millj. kr. við að leggja ljósleiðara á þessa staði held ég að það sé þess virði að skoða það.

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega allt annað en við erum hér að ræða um, þ.e. að færa hlutabréfið frá hæstv. samgrh. til hæstv. fjmrh. --- eða frá mér séð frá hægri hönd til vinstri handar, skipað á ráðherrabekknum. En ég vildi nota tækifærið og nefna þetta hér vegna þess að umræðan, eins og ég segi, hefur verið mjög mikil um grunnnetið og aðra þætti og ég hef gert það viljandi að lengja hana ekki með því að ræða um heilbrigðismál og þá umræðu sem heilbrigðismálakafli háttvirts formanns Samf., Össurar Skarphéðinssonar, fékk á landsfundinum. En þetta vildi ég spyrja út í um leið og ég endurtek að ég er sammála þessu litla frv. sem hér er flutt. Það er mjög gott og gaman að geta stutt frv. frá ríkisstjórninni en ég spyr út í þetta atriði og vænti þess að hæstv. samgrh. tjái sig um það eða hæstv. ráðherra byggðamála og að við fáum að heyra hvernig Landssíminn mundi standa sig í þessu og hvort þetta mál verði klárað áður en að sölu Landssímans kemur.