Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 19:12:16 (1091)

2003-11-03 19:12:16# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þetta svar hans þó að ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þetta mál hafi verið í fyrirspurnaformi og komi kannski fyrir á miðvikudag. Það er þá eitthvað sem hefur farið fram hjá mér.

Engu að síður er það rétt sem hæstv. ráðherra segir, þetta virðist vera notað í nokkrum skólum. Hann nefnir hér skóla sem ég þekki ekki en ég veit um aðra skóla sem nota þessa tækni. En þá má eiginlega spyrja hæstv. ráðherra út í það hvers vegna ekki hafi verið farið af stað með að kanna þessa tækni gagnvart Raufarhöfn og Kópaskeri sem við höfum oft rætt um og eru staðir sem kannski sitja hvað mest eftir hvað þessa byltingu varðar.

Hitt atriðið sem ráðherrann nefndi um að þetta væri rökstuðningur fyrir því að selja grunnnetið með --- það er ekkert sem segir það, virðulegi forseti, að grunnnetið í eigu ríkisins, eins og vegakerfi landsins, skuli ekki taka þátt í þeirri byltingu sem á sér stað í þessum efnum. Það er ekki þar með sagt að ríkisapparat sem ætti grunnnetið þyrfti endilega að sitja eftir og gera ekki neitt, ekki frekar en að ríkisapparatið sem á vegi landsins taki þátt í byltingunni við að malbika, byggja upp vegi og annað slíkt. Ríkisvaldinu er alveg treystandi til að taka þátt í þeim byltingum sem eiga sér stað.

En það má kannski líka snúa spurningunni við, hæstv. forseti, og segja: Er þá ástæða til að vera að plata einhvern annan til að kaupa þetta grunnnet? (Gripið fram í: Svaraðu nú.)