Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 19:16:01 (1093)

2003-11-03 19:16:01# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta nema að hér hefur komið fram, sem við erum sennilega ekkert ósammála um, að gagnaflutningar munu nota ljósleiðara og kopar í jörðu í framtíðinni og áfram þó svo að símatæknin breytist mikið. Á ráðstefnu sem haldin var á Ítalíu fyrir um hálfum mánuði kom fram --- þó að ég sé ekki með alveg á hreinu niðurstöður þaðan en mér hefur verið sagt óljóst frá því sem þar gerðist --- að hreyfingin sé í þessa veru og tæknin að breytast svo hratt að það verði margt orðið úrelt innan eins árs sem við teljum vera sjálfsagðan hlut í dag.

En það er líka sem dæmi um hvað þetta breytist hratt að þegar við vorum að ræða sölu Símans á sínum tíma og ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sátum í samgn. fyrir hönd Samf. þá fengum við m.a. til okkar aðila sem lýstu því mjög greinilega hvernig Landssíminn notaði sér markaðslega yfirburði og notaði sér aðstöðu sem hann hafði gagnvart línum í jörðu og grunnnetinu til þess að koma í veg fyrir samkeppni. Nefnd voru dæmi þar sem aðilar aðrir en Landssíminn voru að bjóða þjónustu sína til fyrirtækja. Þeir þurftu um leið að kanna hvaða leið væri hægt að fara í jörðu eða í lofti í gegnum Símann. Og viti menn hvað gerðist? Yfirleitt komu fulltrúar frá Símanum daginn eftir og buðu svipaða þjónustu. Sem betur fer er þetta nú liðið og það er dæmi um það hvað þetta gengur hratt fyrir sig.

En ég vildi bara ítreka og segja það, og bíð þá eftir þeirri fyrirspurn sem hér liggur fyrir, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt að þessu verði svarað þar og þá munum við taka þátt í þessari umræðu sem ég hef verið að nefna gagnvart Raufarhöfn, Kópaskeri og kannski fleiri stöðum á landinu, en ég hvet til þess vegna þess eins og áður segir að hér sitja ráðherrar bæði samgöngumála og byggðamála og hæstv. forsrh., áður en við förum í mat, að þetta verði tekið upp í ríkisstjórn og hvort það er ekki athugandi að leysa strax málefni þessara byggðarlaga sem ég hef hér gert að umræðuefni á þann einfalda hátt sem mér virðist að hægt sé að gera.