Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:52:50 (1105)

2003-11-04 13:52:50# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar verð á olíumörkuðum hækkar líður yfirleitt ótrúlega skammur tími þar til verð hérlendis hækkar til íslenskra neytenda. Meiri tregða hefur hins vegar verið í að fylgja eftir lækkunum á heimsmarkaði til lækkunar á verði til íslenskra neytenda og það sem meira er, ótrúlegur samhljómur er ætíð þegar verðbreytingar eiga sér stað hjá olíufélögum.

Ég nefni þetta hér, herra forseti, því að að mörgu leyti minnir þetta mig á tryggingafélögin. Þegar illa árar stendur ekki á hækkunum iðgjalda til íslenskra neytenda. Þegar hagnaður hins vegar er mikill, og núna meiri en nokkru sinni fyrr, virðist fátt benda til þess að verð á iðgjöldum til neytenda lækki. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur. Við hljótum að spyrja: Hvar er hin virka samkeppni?

Við hljótum líka að velta því fyrir okkur, herra forseti, að ekki alls fyrir löngu breytti Alþingi skaðabótalögum. Fyrir því virtust vera fullkomlega eðlileg rök. En við hljótum líka að spyrja okkur í framhaldi af því og eins og ástandið er núna hvort Alþingi hafi e.t.v. verið heldur rausnarlegt gagnvart tryggingafélögum í þessum efnum. (Gripið fram í: Spurðu Finn.) Getur verið að þau lög eigi einhvern þátt í hinum mikla hagnaði? Við hljótum að spyrja okkur að því, a.m.k. bólar lítið á lækkunum iðgjalda til neytenda þrátt fyrir gífurlegan hagnað félaganna. Ég lýsi mig reiðubúinn til að taka þátt í endurskoðun á lögum um tryggingafélög ef ástæða er til vegna heilbrigðrar samkeppni og vegna íslenskra neytenda.