Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:59:05 (1108)

2003-11-04 13:59:05# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Tryggingastarfsemi á Íslandi er eitthvert klassískasta dæmið sem við höfum fyrir augunum um algera fákeppni. Þrír aðilar skipta á milli sín markaðnum í aðalatriðum með 90--95% hlutdeild og hana tiltölulega stöðuga. Hagnaður þessara fyrirtækja hefur verið gríðarlegur undanfarin ár og rétt er að hafa í huga að tryggingafélögin, einkum tvö þau stærri af þremur, eru mikilvægar aflvélar í ákveðnum blokkum viðskiptalífsins í landinu og með sjóði sína að baki hafa þær stundum verið gerendur en ekki bara þátttakendur í eignaskiptum og miklum sviptingum, þar á meðal nýlega.

Herra forseti. Að formi til er það auðvitað alvarlegast ef tryggingafélögin misfara með stöðu sína í þeim tilvikum sem um skyldutryggingar er að ræða eins og bifreiðatryggingar, ábyrgðartryggingar bifreiða. En í reynd, praktískt, skiptir það kannski ekki öllu máli ef engin samkeppni er að heldur á þeim sviðum trygginga sem allir almennir notendur taka, eins og heimilistryggingum eða kaskótryggingum bifreiða. Ástandið er þannig að grunsemdir eru um víðtækt samráð, samanber athuganir Samkeppnisstofnunar og Neytendasamtaka en Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar farið sér hægt, a.m.k. enn sem komið er. Þennan gríðarlega hagnað taka tryggingafélögin til sín án þess að því er virðist að nýta sér hann til þess að bjóða betri kjör og reyna að stækka sinn hlut af kökunni. Hvernig stendur á því? Hafa tryggingafélögin ekki áhuga á stærri hlut viðskipta? Þarna er sama staða uppi og með bankakerfið og olíufélögin og fleiri slíka aðila. Það dugar ekki endalaust fyrir stjórnvöld að lýsa áhyggjum og vísa til þess að eftirlitsstofnanir séu starfandi lögum samkvæmt en aðhafast síðan ekki neitt.