Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:50:47 (1117)

2003-11-04 14:50:47# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Við ræðum þáltill. um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði til að hér gætum við sameinast um sáttargjörð um friðlýsingu á þessu mikla vatnasvæði og það væri gott ef þingheimur gæti gert það og litið þá á þetta sem sáttargjörð. Eitt er víst og það er að mjög mikilvægt er að hið allra fyrsta verði tekin ákvörðun um að friða vatnasvæði norðan Vatnajökuls og það áður en fram kemur beiðni um frekari stóriðju hér á landi.

Núverandi ríkisstjórn er mjög hlynnt stóriðju eins og við öll vitum og hefur keyrt hjól efnahagslífsins á stóriðjuframkvæmdum. Það má láta nærri að ef einhver bankaði upp á, hvort sem hann kæmi frá Rússlandi, Ameríku eða einhverju öðru landi, fyrirtæki sem hefði áhuga á því að reisa hér enn eitt álverið eða starfrækja orkufrekan iðnað, yrði það skoðað með mjög jákvæðu hugarfari og þá er spurningin hvaðan eigi að taka þá orku. Fallvötnin eru orðin fá eftir til þess að fara í og Jökulsá á Fjöllum er eina stóra fallvatnið sem gæti borið það að fá inn jafnstórt verkefni og álver á Reyðarfirði er orðið í dag. Við þessar aðstæður og á meðan ekki er bankað upp á er nauðsynlegt að vinna í þessu máli. Það er nær ómögulegt --- við höfum kynnst því í þessum sal --- að taka ákvörðun um friðlýsingu á ákveðnu svæði undir þeirri pressu sem er á öllum, á Alþingi, úti í atvinnulífinu og á ákveðnum svæðum, ef beiðni um stóriðju liggur á borðinu. Ef virkjunaráform liggja fyrir til að uppfylla þær beiðnir er nær ómögulegt að ná sátt um friðlýsingu á viðkomandi svæði.

Við sem þekkjum Jökulsá á Fjöllum og svæðið í kring, hálendið, og njótum þess að fara um náttúru landsins getum ekki verið viss um að sú stórfenglega sýn sem Jökulsá á Fjöllum er frá því að hún kemur frá jökli og alveg þar til hún rennur út í sjó fái að vera í friði. Það sem mörg okkar líta á sem mikil verðmæti líta aðrir fyrst og fremst á sem mikla orku. Það er alveg ljóst að þeir sem fyrst og fremst líta á fallvötnin sem orkulind sem núverandi kynslóð beri að nota til að afla tekna og meiri auðlegðar í landinu líta ekki fram hjá því að það megi bæta orkusvið Kárahnjúkavirkjunar með því að bæta bæði Kreppu og Kverká inn í framkvæmdina. Við skulum ekki gleyma því heldur að þær deilur sem uppi eru um verndun Þjórsárvera, hversu hátt eigi að fara með lón inn á það svæði og hversu mikið eigi að seilast inn í Þjórsárverin, eru einmitt um hagkvæmni virkjunar, hagkvæmni þess að fá inn meiri orku fyrir tiltölulega ódýra framkvæmd. Það á eins við um Hálslónið, Kárahnjúkavirkjun, það er mjög hagkvæmt að beina Kverká inn í Hálslónið og auka þannig orkuna. Þegar þessar staðreyndir liggja fyrir og á meðan ekki er pressa um áframhaldandi stóriðju er mjög mikilvægt að vinna markvisst að þessu máli, hvort sem þetta er þá alveg hreint sérstök friðunaraðgerð eða hvort þessi friðunaraðgerð færi saman við ákvörðun um þjóðgarð eða friðuð svæði norðan Vatnajökuls. Enn megum við bíða eftir rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma og á meðan sú rammaáætlun er ekki lögð fram --- mér hefur þó skilist að hún sé fullunnin --- munum við halda áfram að takast á um einstakar ár og vatnasvið.

Það eru því miður ekki margar ár eftir og ósnortin vatnasvið og því óska ég eftir því við þingheim allan að þessi þáltill. fái mjög jákvæða umfjöllun, herra forseti, og unnið verði að henni núna í vetur, annaðhvort sem alveg sjálfstæðri tillögu eða með annarri ef fram koma tillögur um friðlýsingu á landi norðan Vatnajökulsþjóðgarðs eða friðlýstra svæða. Það fer eftir því hversu hratt sú nefnd vinnur og skilar af sér sem hefur þetta sem verkefni.

Herra forseti. Við höfum ekki óþrjótandi tíma. Það er góður tími núna til að taka ákvörðun sem þessa meðan ekkert stórfyrirtæki stendur í dyrunum.