Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:04:04 (1119)

2003-11-04 15:04:04# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er sérlega ánægjulegt að vera í sölum Alþingis þessa dagana þegar hver forustumaður Sjálfstfl. á fætur öðrum keppist við að lýsa ást sinni á formanni Samf., hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hvort sem það segir nú meira um hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða hitt hvernig Sjálfstfl. líður í stjórnarsamstarfinu.

En að því máli sem er hér til umfjöllunar, þá vil ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hv. þm. Halldórs Blöndals til framkominnar tillögu. Ég tel að það sé mikilvægt að fá fram við afgreiðslu þessarar ályktunar, afstöðu þingsins í þessu efni, alveg skýra og klára. Því segi ég að við, Íslendingar, megum vænta þess á næstu árum að vera spurðir um þá kosti sem við eigum hér til orkuöflunar.

Það var í fréttum fyrir nokkru síðan að Landsvirkjun hefur m.a. átt í viðræðum við Statoil og Statnett sem hafa verið að spyrjast fyrir um hvaða möguleikar kynnu að vera hér í samstarfi við Ísland í orkumálum í tengslum við upptöku á grænum kortum í Evrópusambandinu á árabilinu 2008--2012. Þessi norrænu fyrirtæki telja fyrirsjáanlegt að vegna stefnu Evrópusambandsins verði verð á endurnýjanlegri orku umtalsvert hærra í Evrópu en á annarri orku og það kunni að skapa forsendur fyrir því m.a. að ráðast í miklar fjárfestingar t.d. í tengslum við lagningu sæstrengs héðan og til Evrópu. Það er augljóst að við munum þá þurfa að svara því hvaða afstöðu við höfum til þess og hversu langt við erum tilbúin að ganga á náttúru landsins í raun til að nýta hana í þágu orkuframleiðslunnar.

Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Halldóri Blöndal að ég tel að þessi þáltill. sem fram er komin sé mikilvæg og það sé mikilvægt að hún fái afgreiðslu þingsins skjótt og vel, vegna þess að þetta þarf auðvitað að liggja fyrir áður en menn leggja í mikla leiðangra eða samstarf við fyrirtæki í nágrannalöndunum á þessu sviði.