Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:36:51 (1122)

2003-11-04 15:36:51# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Menn hafa stundum spurt í tengslum við stóriðjuumræðuna hvað Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vilji gera í atvinnumálum. Þetta er dæmi um það. Þetta þingmál sem hér hefur verið talað fyrir af hálfu 1. flm., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, er dæmi um hvernig við viljum standa að atvinnuuppbyggingu í landinu. Þetta þingmál lýtur að aðgerðum til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Okkar hugsun byggir á því að það sé hlutverk samfélagsins, hvort sem er sveitarfélaga eða ríkis, að sjá fólkinu, heimilinum og fyrirtækjunum fyrir góðri grunnþjónustu.

Ég hef stundum vitnað í rannsóknarskýrslu sem unnin var á vegum danska atvinnumálaráðuneytisins undir lok tíunda áratugarins þar sem spurt var hvað fyrirtækin teldu mikilvægast að gert væri af hálfu samfélagsins til að örva atvinnuuppbyggingu, hverju þau legðu mest upp úr, hvað réði því hvar þau settu sína starfsemi niður. Svörin voru mjög á einn veg. Við þurfum að hafa góða leikskóla. Við þurfum að hafa góðar samgöngur. Fólk spyr hvort það komist í tengsl við internetið, svo dæmi sé tekið. Við þurfum að hafa góða heilbrigðisþjónustu, gott menntakerfi, löggæslu, hún þarf að vera í góðu lagi, og þannig má áfram telja. Þetta teljum við vera hlutverk hins opinbera gagnvart atvinnulífinu.

Sú ríkisstjórn sem hér hefur farið með völdin undanfarin ár hefur snúið öllu á hvolf. Hún hefur ráðist í mjög mikla íhlutun í efnahagslífið og atvinnustarfsemi með beinni þátttöku, með beinum fjárfestingum, og þar er stóriðjan að sjálfsögðu nærtækast dæmi. Á sama tíma hefur hún grafið undan og veikt þessa grundvallarþjónustu sem ég var að vísa til og atvinnulífið og að sjálfsögðu heimilin leggja svo mikið upp úr.

En það er annað sem hefur verið mjög sláandi í umræðu um atvinnumál og kemur alltaf fram þegar menn heimsækja fyrirtæki vítt og breitt um landið að þau kvarta öll yfir því hve fjármagnið er dýrt og hve erfitt er að nálgast það, einkum á frumstigi þegar verið er að koma fyrirtækinu á laggirnar. Þess vegna höfum við verið með tillögur hér í þinginu um leiðir til að auðvelda fyrirtækjum aðgang að ódýru lánsfjármagni eða styrkjum. Það var fyrirkomulag sem við bjuggum við hér fyrr á árum. Þá voru allsterkir fjárfestingarsjóðir og lánasjóðir á vegum hinna ýmsu atvinnugreina, sjóðir sem voru sameinaðir undir regnhlíf FBA og síðan innlimaðir í Íslandsbanka. Og það segir kannski sína sögu að þeir sem voru harðastir talsmenn þessa hafa ýmsir verið að ympra á því í seinni tíð að styrkja þyrfti Byggðastofnun sem lánastofnun, lánastarfsemi á vegum Byggðastofnunar. Undir þessi sjónarmið öll höfum við tekið og verið með tillögur um hvernig rétt væri að standa að málum.

Hér hefur verið gerð grein fyrir þingmálinu, hvaða aðgerðir við teljum að þurfi að grípa til til að auðvelda fyrirtækjum að verða til, ef svo má að orði komast. Við viljum að ríkisstjórnin vinni sérstaka framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings þessum fyrirtækjum, atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Við vísum hér á ýmsa efnisþætti; kostnað við að stofna til atvinnurekstrar og aðgang að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi, aðgang smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu, kostnað og aðgang smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga, aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu, kostnað og eftir atvikum aðrar hindranir sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri, kostnað uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar. Við viljum að skattalögin séu skoðuð með þessa hagsmuni í huga.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur reynt að örva umræðu um þessi mál. Við vorum með mjög athyglisverða ráðstefnu í haust um leiðir til að styrkja smáatvinnurekstur, atvinnurekstur í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og þar fengum við m.a. þá aðila sem hér er vísað til, uppfinningamenn, menn sem hafa beitt sér fyrir eða hafa verið frumkvöðlar í atvinnurekstri. Þetta var ráðstefna sem var afar gefandi og við fengum mikinn stuðning við þá stefnu sem við hér fylgjum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa þáltill. Fyrsti flutningsmaður hennar, formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefur gert ítarlega grein fyrir málinu og í greinargerð með þingmálinu er líka vikið að því sem hefur verið að gerast á þessu sviði á undanförnum árum og við fögnuðum að sjálfsögðu þeim skrefum sem hafa verið stigin. Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri hefur verið nefnd í því sambandi og við vísum til þess sem hefur verið unnið á vegum Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar svo dæmi séu tekin.