Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:44:35 (1123)

2003-11-04 15:44:35# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Við í Frjálsl. getum í meginatriðum tekið undir markmið þáltill., þ.e. að stuðla að því að menn stofni fyrirtæki og hlúi að nýsköpun og þróunarstarfi.

Ýmislegt jákvætt hefur gerst á síðustu árum varðandi nýsköpun í atvinnurekstri. Í fyrsta lagi hefur almennt orðið meiri skilningur á því að koma þurfi á nýsköpun og þróun og leggja peninga í rannsóknir. Annað mikilvægt skref var stigið þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var stofnaður. Það var gert með því að slá saman nokkrum opinberum sjóðum og söluandvirði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þegar meta á afrakstur nýsköpunarverkefna og frumkvöðlasetra er mikilvægt að hafa í huga að það getur tekið langan tíma að meta hvort verkefni skili árangri og það verður að gefa verkefnum tíma.

Virðulegi forseti. Þó margt hafi áunnist á síðustu árum er tímabært að fara yfir aðstöðu frumkvöðla sem hleypa af stokkunum nýjum fyrirtækjum því margt má betur fara.

Nýliðar skipta verulega miklu máli. Þeir stuðla að framförum, einkum á tvennan hátt. Annars vegar að koma með nýjar hugmyndir og hins vegar að setja þrýsting á þá sem eru fyrir í atvinnurekstrinum. Það leiðir til þess að þeir bæta sig.

Mikilvægt er að fara yfir þessa stöðu vegna þess að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnuvegina í heild. Minni fyrirtæki búa oft á tíðum við verri vaxtakjör en stórfyrirtæki. Stærri fyrirtæki hafa greiðari aðgang að erlendu lánsfé þar sem vextir eru lægri en hér innan lands. Og þessir háu vextir reynast oft þungur baggi að bera fyrir minni fyrirtæki.

Það eru ýmsir sjóðir sem nýliðar í atvinnurekstri og fyrirtæki geta sótt í, sjóðir sem er ætlað að stuðla að nýsköpun. Full þörf er á að fara rækilega yfir þá sjóði því skipulag og fjárframlög til þeirra er stundum með þeim hætti að þeir stuðla alls ekki að því að nýir aðilar hasli sér völl.

Imprusjóður Iðntæknistofnunar og Nýsköpunarsjóðs er að mörgu leyti ágætur sjóður sem ætlað er að veita styrki til nýsköpunar. En helsti galli hans er að hann veitir mjög lága styrki. Hæstu styrkir sem hann veitir eru um 400.000 kr. Það er ekki sú upphæð sem skiptir sköpum við stofnun fyrirtækja eða að hrinda nýrri hugsun eða nýsköpun í gang.

Annar sjóður sem nýlega er búið að stofna finnst mér vera mjög gagnrýniverður og það er sjóðurinn um aukið virði sjávarafurða. Ég hefði talið nær að veita þá fjármuni sem fara í þann sjóð frekar í Nýsköpunarsjóð. Þar er fyrir sjóður sem er eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni þurrausinn. En skipulagið á þessum nýja sjóði er mjög gagnrýnivert. Búið er að veita talsvert fjármagn í hann en slaknað hefur á honum. Skipulag hans er þannig að hætt er við að nýir aðilar fái ekki fjárstyrk úr sjóðnum, þar eð þeir sem nú þegar eru leiðandi í atvinnugreinum sem ætlað er að styrkja til nýsköpunar, sitja í verkefnahópum sjóðsins og er ætlað að leggja faglegt mat á nýjar umsóknir.

Í fiskeldishópnum sitja kunnugleg nöfn sem eru fyrir að reka fiskeldisfyrirtæki, svo sem Guðbrandur Sigurðsson, hjá Brimi, sem er formaður, og Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja. Ætli sú skipan sé líkleg til þess að nýjum aðilum með nýjar hugmyndir verði veittur fjárstyrkur til að fara í samkeppni við þá sem fyrir eru í greininni og sitja í stjórn sjóðsins? Ég efa það.

Hinir hóparnir sem hafa verið myndaðir til að fjalla um umsóknir til nýsköpunar í sjávarútvegi eru sama marki brenndir. Formaður fiskvinnsluhóps Nýsköpunarsjóðs er einnig formaður Samtaka fiskvinnslustöðva. Formaður líftæknihópsins, Úlfar Steindórsson, sem á að fjalla um umsóknir til nýsköpunar er sjálfur á kafi í rekstri. Úlfar er starfandi stjórnarformaður í Primex, sem er eitt stærsta líftæknifyrirtæki á landinu. Er vænlegt fyrir nýliða sem ætla í nýsköpun að senda forstjórunum og stjórnarformönnum sem fyrir eru í greininni í öflugum og stórum fyrirtækjum trúnaðarupplýsingar um fyrirhugaðan rekstur? Ég efa það stórlega.

Í þessum ræðustól hef ég áður bent á mikilvægi þess að nýliðar spreyti sig í atvinnurekstri og bent á að kvótakerfið í sjávarútvegi komi ekki einungis í veg fyrir eðlilega samkeppni í útgerð og nýliðun, heldur kemur það einnig í veg fyrir að fiskvinnslur búi við sambærileg og sanngjörn samkeppnisskilyrði. Þær sem ráða yfir gjafakvóta fá fiskinn inn í vinnsluna á lægra verði en þær sem kaupa á mörkuðum. Það sem undirstrikar þennan ójöfnuð er að vinnslur sem versla á frjálsum mörkuðum eru í sérsamtökum sem hafa það að leiðarljósi að samkeppni um hráefni verði sanngjörn og eðlileg.

Ég hef reyndar furðað mig lengi á því að Sjálfstfl. sem vill reyna að kenna sig stundum við frjálst markaðskerfi skuli halda hlífðarhendi yfir svo óréttlátri samkeppnisaðstöðu.

Mér finnst í raun tímanna tákn að sjá að það eru Vinstri grænir sem flytja þáltill. um nýsköpun sem við Frjálsl. getum tekið undir í meginatriðum. Ekki er það Sjálfstfl. sem er alltaf að verða meiri og meiri kvótaflokkur og virðist í raun fjarlægjast sanngjarnar leikreglur og viðheldur óréttlátu kvótakerfi, setur upp svokallaða nýsköpunarsjóði þar sem nýliðar þurfa að sækja um opinbera styrki til forstjóra í stórfyrirtækjum sem jafnvel eru í enn þá í rekstri á sömu sviðum og umsækjendur.

Þetta vinnulag ríkisstjórnarflokkanna í viðskiptum og stjórn opinberra fjármuna og sjóða sem efla eiga nýsköpun veldur vantrú á að faglegum vinnubrögðum sé beitt við umfjöllun nýrra umsókna til nýsköpunar.