Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:00:48 (1125)

2003-11-04 16:00:48# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé á ferðinni mjög gagnmerk tillaga fyrir margra hluta sakir. Í samfélagi okkar undanfarin missiri og undanfarin ár hefur verið rekin stefna hagræðingar í atvinnulífinu og í mörgum greinum er svo komið að ungt fólk lítur ekki á það sem framtíðarvalkost að læra til vissra verka. Við sjáum t.d. að Stýrimannaskólinn er með örfáa nemendur, Vélskólinn sömuleiðis, þannig að það er full ástæða til að athuga og skilgreina hvernig við ætlum að standa að atvinnuuppbyggingu í þessu landi.

Auðvitað er grunnþjónustan þar lykilatriði, grunnþjónusta sem ríkið rekur og við erum að takast á um hvernig eigi að koma fyrir hér um bil á hverjum einasta degi hér á hinu háa Alþingi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á það að samkvæmt könnunum leggja fyrirtæki mjög mikið upp úr stoðkerfi samfélaga þar sem þau setja sig niður og er þá verið að tala um vegakerfi, veitur, þjónustu af ýmsu tagi, hvort sem það er heilsugæsla, öldrunarþjónusta, barnagæsla, skólar o.s.frv. þannig að hér er um gríðarlega veigamikla þætti að ræða.

Ræðum aðeins um uppbyggingu fyrirtækja á landsbyggðinni. Við erum t.d. með fyrirkomulag á raforkuafhendingu sem byggir á svikamyllu gagnvart fyrirtækjum sem þar eru staðsett. Rafmagnsveitur ríkisins hafa það hlutskipti að selja og veita inn á strjálbýlustu svæði landsins, þær hafa aðeins örfáa þéttbýlisstaði innan vébanda sinna. Hinn félagslegi þáttur raforkukerfis Rafmagnsveitna ríkisins er að stórum hluta fjármagnaður með aukinni gjaldtöku á þéttbýlisstöðunum sem Rafmagnsveitur ríkisins þjónusta. Hér er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða og við síðustu fjárlagagerð var talið að Rafmagnsveitur ríkisins þyrftu að fá um milljarð kr., a.m.k. 900 millj., til þess að standa straum af afhendingu á rafmagni á þessum félagslegu nótum sem kallaðar eru, þ.e. óarðbæra hluta raforkukerfisins.

Það þýðir náttúrlega ekki neitt að bjóða atvinnulífi og nýjum sprotafyrirtækjum upp á grunn sem ekki einu sinni stenst sanngirni. Annaðhvort verðum við að endurskoða afstöðu okkar til Rafmagnsveitna ríkisins og létta af fyrirtækinu þeirri kvöð að þjóna hinu óarðbæra kerfi, þ.e. allra strjálbýlasta svæðinu, með því að taka aukið gjald í raun og veru af þeim þéttbýlisstöðum sem fyrirtækið þjónar eða fjármagna þjónustuna öðruvísi. Það er hróplegt misræmi í þessum málum sem á stóran þátt í því að fyrirtæki í dreifbýlinu, í smærri byggðarlögum, eiga mjög erfitt uppdráttar, fyrirtæki sem þurfa að nota mikla orku. Er það m.a. kannski ástæðan fyrir því að mörg þessara fyrirtækja nota innflutta orkugjafa, jarðolíur, í staðinn fyrir að nota rafmagn vegna þess að það er gríðarlega dýrt.

Önnur atriði, og það var síðast til umræðu hér í gær, eru fjarskiptamálin sem eru líka algjört grunnatriði ef fólki á að finnast fýsilegt að stofna til fyrirtækjareksturs, sérstaklega í dreifbýli. Maður finnur vel að ef fólk hefur ekki internettengingu, ef það hefur ekki þá möguleika sem það telur að það þurfi hvað fjarskipti varðar, verður það stór þrándur í götu. Þess vegna er mjög mikil og stór umræða í þessu samhengi öllu hvernig við förum með Landssímann og hvernig við stöndum að uppbyggingu fjarskipta í landinu. Það er lykilatriði.

Umræða hefur verið þrálát um smá og meðalstór fyrirtæki og í von um að þau spretti upp fleiri og fleiri verðum við að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi, þ.e. grunnþjónustan sem við vinnum með á hverjum degi. Það er pólitísk spurning, um málið eru gríðarleg átök og núna síðast, eins og ég nefndi, um Landssíma Íslands.

Hagræðingarhrina síðustu ára hefur leitt til samþjöppunar. Við getum tekið flutningageirann þar sem tveir aðilar hafa nánast mulið undir sig fjölda fyrirtækja sem voru á flutningsmarkaði á sínum tíma. Nú eru örfáir einyrkjar eftir í þeim bransa. Það má spyrja sig hvort það hafi verið heppileg þróun. Þeir sem stýra henni segja að svo hafi verið en þeir sem nýta hana eru alls ekki vissir um það lengur. Menn benda á gríðarlegan kostnað, hækkun flutningsgjalda o.s.frv. Þarna er spurning um það hvort verið sé að fara inn á réttar brautir með tilliti til samfélagsins. Ég held að svo sé ekki þegar til lengri tíma er litið.

Við höfum verið að tala um og horft á samþjöppun sjávarútvegsfyrirtækja sem á sér stað stjórnlaust og margir sem í greininni eru hafa þá sýn að sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi eigi bara að vera þrjú. Þá er spurningin hvort sjávarútvegur verður yfir höfuð rekinn frá stöðum á landsbyggðinni, hvort menn hugsi þá ekki til þess að útgerðin verði bara út frá hinum stóru Faxaflóahöfnum. Þetta eru hlutir sem sannarlega verður að skoða og menn verða að átta sig á því hvort þetta er þróunin sem þeir vilja. Það er ekki hægt að horfa upp á það að þróun í atvinnumálum sé bara á forsendum fyrirtækjanna án þess að gerð sé hin minnsta tilraun af hálfu opinberra aðila til að stýra henni.

Fyrir mína parta tel ég að þetta sé röng þróun, t.d. í sjávarútvegi, líka í landbúnaði. Þar hefur verið gríðarleg samþjöppun og fækkun búa en á móti stórar og miklar fjárfestingar sem þeir sem eftir eru í greininni hafa farið út í. Það er líka í sjávarútveginum. Það er ekki langt síðan við vorum mjög áhyggjufull yfir því á hinu háa Alþingi að sjávarútvegurinn skuldaði hátt í 100 milljarða kr. Nú jaðrar við að þessi upphæð hafi tvöfaldast.

Það er svo sannarlega ástæða til að velta fyrir sér möguleikum þeim sem reifaðir eru í þessari till. til þál. sem flutt er af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það er sýn til framtíðar, það er sýn um fjölbreytileika. Unga fólkið á Íslandi mun ekki líða einhæfni í atvinnulífinu. Það mun ekki líða að það fái ekki aðkomu að atvinnulífinu. Þess vegna er tillagan allra góðra gjalda verð.