Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:36:04 (1128)

2003-11-04 16:36:04# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að nauðsynlegt sé, þar sem hv. þm. virðist hafa gleymt forsögu þessa máls, að minna á að umhvn. beindi því sérstaklega til ráðherra að stytta veiðitímann, að ráðherra hefði tök á að vernda rjúpnastofninn með því að stytta veiðitímabilin. Nefndin telur að það verði vænlegra til árangurs við að vernda rjúpnastofninn en sölubannið. Nú virðist þingmaðurinn allt í einu standa í þeirri trú að nefndin hafi verið að beina því til ráðherra að taka upp friðuð svæði o.s.frv. Það var ekkert minnst á það í nefndarálitinu á sínum tíma.

Samkvæmt lögum er það hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að meta rjúpnastofninn og koma með tillögur um veiðar úr honum, eins og Umhverfisstofnun gerir raunar líka. Ég vil halda því til haga vegna þeirra orða sem hv. þm. lét falla hér áðan.

Síðan verð ég að segja að tvö atriði í þessari þáltill., kannski tvö meginatriði sem þingmennirnir vilja að gripið sé til, eru ekki á valdi ráðherra. Það þarf að breyta lögum til þess að hægt sé að grípa til þeirra úrræða. Það þarf að breyta lögum ef grípa á til tímabundins sölubanns og líka ef það á að grípa til kvóta. Ég furða mig á því að þessi tillaga komi fram í formi þáltill. þar sem sagt er við ráðherrann: Þú átt að nota eina til fleiri af þessum aðferðum. Bara nota þær. Ráðherrann sem hér stendur getur ekki notað þessar aðferðir. Fyrst þarf að breyta lögunum. Ég lýsi furðu minni á því að þingmenn skuli leggja til að ráðherra noti aðferðir sem ekki eru á hans valdi. Mér finnst það innistæðulaust og varla sæmandi.

Hins vegar vil ég koma á framfæri að ég deili hugmyndum hv. flutningsmanns varðandi ref og mink. Við höfum notað um 500 millj. kr. á síðustu sjö árum til að eiga við ref og mink og stóraukið það framlag á síðustu árum. En við þurfum að gera enn betur í að nýta þetta fjármagn. Það eru tvær nefndir að fara í gang til að vinna sérstaklega að því.