Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:53:01 (1134)

2003-11-04 16:53:01# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei sem betur fer eru dýr merkurinnar ekki í stjórnmálaflokkum. Guði sé lof fyrir það. En það er samt ánægjulegt að líta til þess að sumir stjórnmálaflokkar hafa fram að þessu staðið betur vörð um t.d. þessi dýr sem ég hef tiltekið en aðrir.

Víst er það sýndartillaga, þó hugur fylgir máli, ef menn koma ekki fram með þáltill. strax í fyrstu viku þingsins eftir að hafa þanið sig út megnið af sumrinu um hvað þeir ætli að gera þegar þing kemur saman. Ef hugur fylgir máli þá kemur þetta mál fram í fyrstu viku. Ef hugur fylgir rækilega máli þá flytja menn frv. til þess að þingið geti tekið afstöðu til lagaákvæðanna, en ekki þáltill. til að fá viljayfirlýsingu þingsins sem síðan á að fara til ráðherrans. Síðan á hann að fara að flytja frv. með þessum lagaákvæðum.

Við vinnum eftir ákveðnu ferli í þinginu. Við vitum hver munurinn á þáltill. og frv. er og þau eru notuð miðað við það hvernig á að vinna málið. Stundum er þingið að senda álit til ráðherranna og biðja þá að vinna frekar með málið. En ef menn ætla að ná ákveðnum hlutum fram og strax í kjölfar málsins --- ef það er nú von til þess að fá það samþykkt --- þá flytja þeir frumvarp.

Allt í þessu máli er æpandi staðfesting á því að menn eru að reyna að bjarga sér með að koma með eitthvað fram of seint og of illa unnið til að nokkur vegur sé að þetta nái fram að ganga.