Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:56:10 (1136)

2003-11-04 16:56:10# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo ágætt að þetta mál snýst ekkert um Samfylkinguna. Að vísu er búið að vera mjög skemmtilegt á Alþingi undanfarna daga því alveg sama hvaða mál hefur komið upp hér, hvaða stjfrv. hefur komið til umræðu, þá hefur umræðan alltaf snúist upp í að fjalla um Samfylkinguna og stefnu hennar. Það er sama hvort það er sala á Landssímanum eða eitthvað annað, áður en menn vita eru þeir komnir í umræðu um Samfylkinguna.

En ég hef mest gaman af þessari tillögu og kem fyrst og fremst upp til að segja frá því og vekja athygli á því hvað hún er gagnslaus. Fyrst og fremst ætla ég þó að fylgjast með hvernig umræðan verður á milli stjórnarflokkanna. Þetta er þeirra mál. Heill þingflokkur sjálfstæðismanna leggst gegn ráðherranum í samstarfinu og leggst væntanlega gegn þingmanni þeirra því hver verður staða þingmannsins þegar hún verður orðinn ráðherra að ári vegna þess að búið er að taka þessa ákvörðun um friðunina.

Hér á sér því stað alveg einstaklega skemmtilegt mál sem við höfum fulla ástæðu til að sitja yfir á þessum þriðjudagseftirmiðdegi og fylgjast með þingmönnum stjórnarflokkanna og orðræðu þeirra.