Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:57:51 (1137)

2003-11-04 16:57:51# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ekki verður á móti því mælt að þetta er óvenjulegt þingmál. Hér flytja 18 þingmenn, þar af 17 stjórnarsinnar, tillögu sem gengur út á það að grípa fram fyrir hendur ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sömu þingmenn eru stuðningsmenn að, og segja henni fyrir verkum gagnvart nýlega tekinni ákvörðun framkvæmdarvaldsins um tímabundið veiðibann á rjúpu. Einhvern tíma hefði þetta nú verið talið nálgast vantrauststillögu á ráðherra. Það verður að segjast alveg eins og er að ef maður nennti að taka þetta mál alvarlega sem slíkt þá væru það auðvitað stórtíðindi í stjórnmálalegu samhengi.

Það er ekki á hverjum degi sem ríkisstjórn, þingbundin meirihlutaríkisstjórn, sem sækir umboð sitt til stjórnarmeirihlutans á Alþingi fær á sig mál af þessu tagi, að ákveðið er að flytja tillögu og grípa fram fyrir hendur ráðherrans, taka af honum valdið og segja honum fyrir verkum. Það er auðvitað á öllu venjulegu mannamáli ósköp einfaldlega vantraust á embættisfærslu ráðherrans.

Ég ætlaði nú ekki að elta ólar við það satt best að segja. Ég hef miklu meiri áhuga á því að ræða efnisþætti þessa máls og stöðu rjúpnastofnsins. Að sjálfsögðu flytur hv. þm. Gunnar Birgisson öll þau þingmál sem hann vill. Hann hefur ekki íþyngt okkur mjög með miklum fjölda þeirra á undanförnum árum. Hann flutti eitt stórmerkilegt þingmál á síðasta kjörtímabili um box og nú er hann kominn að því að leyfa veiðar á rjúpu. Það verður spennandi að vita hvað hann tekur fyrir á þriðja kjörtímabili sínu ef hann verður svo lengi á Alþingi.

[17:00]

Ég verð líka að segja að tillagan er mjög sérkennileg. Hún er ekki bara sérkennileg vegna þess hvernig hún er flutt, í hvaða samhengi við stjórnarsamstarfið, hún er sérkennileg vegna þess að hún er hrærigrautur af mismunandi valkostum um að vernda rjúpuna. Það er bara bögglauppboð, hvað viltu? Viltu sölubann, viltu kvóta, viltu þetta eða hitt? Það eru í raun og veru sex kostir og boðið upp á að taka einn þeirra eða blöndu af þeim. Ég spyr á móti: Er samstaða í hópi flutningsmanna um einhvern af þessum kostum? Eru allir þessir átjánmenningar sammála um sölubann? Eða eru þeir sammála um að stytta veiðitímann eða eru þeir sammála um að þetta eigi að vera kvóti eða hvað? Maður hefði getað tekið þessa tillögu alvarlega ef hún hefði falið í sér skýra stefnumótun: Svona viljum við hafa þetta, leyfa veiðar á rjúpu en vernda hana með tilteknum aðgerðum. En það er ekki, m.a. vegna þess að baklandið er væntanlega þannig að þeir hafa ekki komið sér saman um neitt annað en tillöguflutning af þessu tagi. Síðan á að henda pakkanum í umhvn. þingsins og ráðherra. En umhvn. sat yfir þessu máli í allan fyrravetur og niðurstaðan þar varð tiltekin eins og við þekkjum.

Ég flutti tillögu strax á fyrsta degi þings haustið 2002 um aðgerðir til verndar rjúpnastofninum. Ég hef reyndar hreyft því máli og hafði hreyft því máli þrjú haust í röð vegna vaxandi áhyggna af því hvernig stofninn var á hraðri niðurleið. Því miður var ekkert undir það tekið og verð ég að vísa til vonbrigða minna með það að þá aðhafðist umhvrh. ekkert eins og ég hefði gjarnan viljað. Ég lagði t.d. fram fsp. í hittiðfyrrahaust um hvort til greina kæmi að stytta veiðitímann. Þeirri fsp. var ekki svarað. Það dróst að svara henni þangað til veiðin var byrjuð. Svipað var upp á teningnum í fyrra þegar ég lagði fram á fyrsta degi þingsins, 1. október, tillögu um styttingu veiðitímans í von um að slíkar aðgerðir dygðu. Þá var ekkert aðhafst og enn eitt haustið fór fram hjá okkur. Sú tillaga fól það að vísu í sér að ef ekki slík friðun og nákvæm vöktun á stofninum sýndi að óhætt væri að leyfa veiðar þá skyldi grípa til harðari aðgerða, annaðhvort sölubanns eða alfriðunar stofnsins um eitthvert árabil. Ég er enn þeirrar skoðunar að grípa verði til aðgerða. Og til að það sé algerlega á hreinu, sé ekkert annað í boði en sú algera friðun rjúpunnar tímabundið sem ráðherra hefur ákveðið þá styð ég það því að eitthvað verður að gera, það er algerlega ljóst.

Ég hef fylgst með ástandi rjúpnastofnsins lengi. Ég hef gengið til rjúpna á heimaslóðum mínum síðan ég var unglingur. Ég ætla ekki að upplýsa hvað ungur ég var þegar ég byrjaði en það eru a.m.k. 25--30 ár síðan. Ég hef fylgst með því ásamt með staðkunnugum mönnum á norðausturhorni landsins hvernig ástand stofnsins, þar sem hann á nú af náttúrufarslegum ástæðum að vera hvað sterkastur, hefur hríðversnað og er hörmulegt í dag, það fullyrði ég sem ég stend hérna. Það er hörmulegt ástand þegar eitt eða tvö rjúpnapör verpa í þjóðgarðinum í Öxargljúfrum, þegar hægt er að ganga klukkustundum saman um móa á Þistilfjarðarheiðum, Melrakkasléttu og Langanesi án þess að verða var við nema eitt og eitt rjúpnapar á stangli í besta kjörvarplandi rjúpunnar á Íslandi. Þá er hörmulegt ástand á þeim stofnum, þar sem maður smalaði ungur maður til rúnings á sumrin og ekki var þverfótað fyrir rjúpu. Það var alveg sama hvert litið var, þar voru rjúpnahópar að fljúga upp, a.m.k. í góðum árum þegar stofninn var í uppsveiflu.

Auðvitað kemur þar fleira til en veiðin, það vitum við vel. En það er einföld staðreynd að veiðin er sá þáttur sem við getum haft áhrif á. Ég sé ekki annað en að óhjákvæmilegt sé að taka þetta ástand stofnsins mjög alvarlega.

Ég hefði auðvitað bundið vonir við það ef menn hefðu gripið tímanlega í taumana að komast hefði mátt hjá algeru veiðibanni vegna þess að það er óæskilegt í sjálfu sér að þurfa að hætta veiðunum alveg. Þá rofnar þar ákveðið samhengi sem er við veiðarnar og ákveðnar upplýsingar sem þær gefa á hverju ári. En það er ekkert vit í öðru en að láta þennan stofn njóta viðurkenndra varúðarsjónarmiða. Og við skotveiðimenn, af því að ég segi við skotveiðimenn, eigum að vera í fararbroddi þeirra sem hafa það sjónarmið í heiðri og að leiðarljósi að hér verði að fara fram með aðgát. Ég læt ekki undan þrýstingi jafnvel þó að þeir menn hóti mér því í tölvubréfum að kjósa mig ekki oftar þegar ég hef sannfæringu fyrir máli af þessu tagi. Það eru ekki röksemdir sem bíta mikið á undirritaðan.

Nei, góðir fundarmenn, mér sýnist það næsta ljóst --- eða næsta víst, eins og ónefndur íþróttafréttaritari mundi orða það --- að það mun koma til með að ríkja veiðibann í haust, það mál er fallið á tíma. Er þá ekki hyggilegt að menn grafi stríðsaxirnar og taki þetta mál í vandaða skoðun í vetur í nefnd þingsins og meðal stjórnmálaflokkanna? Kannski komast menn niður á samkomulag sem gerir það að verkum að menn treysta sér til að opna aftur fyrir einhverja takmarkaða og vel stýrða veiði. Ef ekki, þá held ég að varúðarsjónarmiðin eigi að gilda.

Ég hef velt því mikið fyrir mér hvort hægt væri að færa stýringu á rjúpnaveiðunum yfir í svipaðan farveg og gildir um hreindýraveiðarnar þannig að þetta væri leyfisbundið, þessu væri stýrt svæðisbundið og landeigendur og sveitarfélög nytu þá arðs af þeirri sportveiðimennsku og hægt væri kannski að ná betra samkomulagi og betri sátt milli íbúa svæðanna, landeigenda, sveitarfélaga og svo aftur sportveiðimanna. Öllum er fyrir bestu að þessi mál komist í einhvern skynsamlegan og jákvæðan farveg en séu ekki í þeim skotgrafahernaði sem núna ríkir.