Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:11:22 (1141)

2003-11-04 17:11:22# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hætti mér ekkert frekar út í orðræður við hv. þm. um túlkanir á afstöðu manna hér. Hann virðist fara mjög frjálslegar leiðir í því að gera menn ýmist að andstæðingum sínum eða samherjum á víxl. Ég tel að ég hafi ekki tekið neinar U-beygjur í þessu máli heldur talað fyrir sjónarmiðum mínum sem eru í aðalatriðum eins og þau hafa verið og hv. þm. verður bara að búa við það.

Mér finnst að vanti að nefna til sögunnar og þessara umræðna einn þátt, þ.e. fálkastofninn. Enginn vafi er á því að einnig er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af afkomu hans og velferð í framhaldi af því hvernig rjúpnastofninn hefur sannanlega hrunið. Staðkunnugir menn telja sig verða vara við það að fálkinn sé í æ meira mæli farinn að reyna að leita sér í aðra fæðu en sína kjörfæðu sem er rjúpnastofninn, lunda eða hvað sem það nú er. Við vitum að mikil deila er um refinn og ekki eru allir sammála um hvort halda eigi honum niðri af þeirri hörku sem ýmsir vilja og þarf auðvitað að gera ef á að hafa bein áhrif á þátt hans í þessu afráni á rjúpnastofninum.

Þá erum við komin kannski inn í flóknari umræðu þar sem um fjölstofna samspil í lífríkinu er að ræða og að hve miklu leyti við erum til þess bær, mennirnir, að fara að stýra því með því að veiða tegundirnar þannig niður á víxl að þær séu í jafnvægi. Þetta er hugmyndafræði sem liggur að baki rannsóknum á hvölum á Íslandi um þessar mundir og mætti nú margt um það segja en er víst eitthvað önnur saga.

En aðalatriðið er, virðulegi forseti, að hér ber að viðhafa þær leikreglur í samskiptum við náttúruna sem skynsamlegastar eru og það er varúðarsjónarmið, því það er nefnilega auðvelt mál að opna á nýjan leik fyrir veiðar þegar eða ef menn eru öruggir um að það sé óhætt. Hitt er ekki eins auðvelt ef stórslys verða í náttúrunni hvað það varðar að menn hafi gengið of nærri tilteknum tegundum. Þess vegna er auðvitað miklu auðveldara að leysa málið í þá áttina ef menn kunna fótum sínum forráð.