Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:28:51 (1146)

2003-11-04 17:28:51# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er komin ný tækni til ferðalaga hér á landi en það er líka hægt að setja reglur um það hvaða tæki menn mega nota til þess að fara til rjúpna. Slíkar reglur eru vissulega takmarkandi eftir því hvernig þær eru settar, hvort bannað er að nota fjórhjól, snjósleða, veiðihunda o.s.frv.

Það er mikill munur á því hvernig staðið er að reglum hvaða afköst menn geta sýnt við veiðar. En ég hef ekki heyrt annað, virðulegi forseti, en að m.a. samtök veiðimanna hafi lýst því yfir að þeir væru tilbúnir til að skoða allar þessar aðferðir til þess að takmarka veiðar og binda þær með þeim hætti að menn teldu að ekki væri verið að ofgera rjúpnastofninum.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, enn og aftur, að ég tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt að veiðar fari fram til þess að menn hafi þá mælingu samhliða annarri mælingu. Ég hef ekki trú á því að við náum niðurstöðu í stærð rjúpnastofnsins bara með því að stunda talningar vítt og breitt um landið. Þær verða þá að vera í slíkum mæli að við erum þá að tala um einhverja tugi manna sem við réðum til þeirra starfa ef svo á að vera, fyrir utan það að það er með rjúpuna eins og fiskinn að hún færir sig á milli staða. Fiskurinn notar að vísu sporðinn en rjúpan vængi. Það er nú eini mismunurinn á þeim dýrategundum til þess að afla sér fæðu og velja sér viss svæði. Ég held því að það sé mjög áhugavert, virðulegi forseti, að það sé skoðað hvernig veiði á rjúpu eftir svæðum í landinu mundi leggja sig ef það væri skipulagt að veiða hér eftir einhverju svæðisskipulagi.