Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:39:43 (1148)

2003-11-04 17:39:43# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hér kemur fram afdráttarlaus yfirlýsing um að þessari ákvörðun sé fagnað. Það er þó eitt sem ég verð að gera athugasemd við varðandi málflutning hv. þm., og þetta kom líka fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er það að hér hafi verið reynt að þrýsta á ráðherra í langan tíma að taka einhverjar ákvarðanir um styttingu veiðitíma eða bann við veiðum eða eitthvað slíkt.

Af þessu tilefni vil ég taka fram að Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hefur það hlutverk að meta ástand stofnsins og koma með ráðgjöf til ráðherra, kemur árið 2001 ekki með tillögur um að stytta veiðitímann eða neitt slíkt. En mér finnst af umræðunni að það sé verið að halda því fram, en svo er ekki. Árið 2002, sem sagt í fyrra, leggur Náttúrufræðistofnun Íslands til að veiðitíminn verði ári síðar einn mánuður og sett á sölubann. Við förum yfir það og ákveðum að setja á 49 daga veiði, þ.e. lengur en mánuð og sölubann, sem reyndar fór svo ekki í gegnum þingið, og ákváðum að þetta yrði fimm ára prógramm, sem sagt veitt í 49 daga, og það átti að hefjast nú í ár.

Síðan í sumar leggur Náttúrufræðistofnun Íslands til bann við veiðum í fimm ár, en ég ákveð bann í þrjú ár. Þannig að ég átta mig ekki alveg á þessari umræðu að ýmsir þingmenn upplifi þetta sem svo að ráðherra hafi eitthvað verið að draga lappirnar ægilega mikið í þessu máli. Það er bara þannig að við höfum farið meira eða minna eftir tillögum Náttúrufræðistofnunar og það hefur verið samstaða á milli okkar um að þær aðgerðir sem við höfum viljað grípa til mundu duga til. Ég tel að við höfum tekið mjög ábyrgt á þessum málum.