Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:41:48 (1149)

2003-11-04 17:41:48# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að hæstv. umhvrh. hafi ekki borist tillögur frá Náttúrufræðistofnun á undanförnum tveimur árum sem lutu að því að takmarka veiðar á rjúpnastofninn. En hins vegar voru hér bæði þingmál og fyrirspurnir frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni haustið 2002 og haustið 2001 sem lutu nákvæmlega að áhyggjum af þessum málum. Við þingmenn vorum búin að fá upplýsingar frá fólki vítt og breitt um landið sem hafði áhyggjur af rjúpnastofninum. Við höfðum líka pata af því að vísindamenn, jafnvel á Náttúrufræðistofnun, voru orðnir uggandi um það að uppsveiflan væri ekki nægileg, stofninn væri í sögulegu lágmarki. Ég er ekki að halda því fram að Náttúrufræðistofnun hafi átt að koma með tillögur fyrr eða hafi komið með tillögur fyrr, heldur eingöngu það að það voru tækifæri til þess að grípa til þessara aðgerða fyrr og taka þessa umræðu fyrr. Við höfðum þau tækifæri í þingmálum sem hv. þm. Steingrímur J. Steingrímsson, formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, lagði hér fram.