Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:56:07 (1154)

2003-11-04 17:56:07# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki ánægður með þessa ræðu hæstv. ráðherra. Mat hæstv. ráðherra á stöðunni í fyrra var það að veiði í 49 daga og sölubann væri nóg. Mat hæstv. ráðherra núna er að það megi veiða eina viku í mesta lagi. Ég tók mark á hæstv. ráðherra. Mér fundust það vera upplýsingar líka til okkar hvaða afstaða væri hjá hæstv. ráðherra til þess sem ætti að gera. Þess vegna segi ég að mér finnst málið líta einhvern veginn gjörsamlega allt öðruvísi út í dag eins og hæstv. ráðherra talar fyrir því en það gerði í fyrravetur þegar við fórum yfir málið.

Ég veit vel að Náttúrufræðistofnun hélt þessu fram. En það voru líka fjölmörg önnur sjónarmið uppi í málinu í fyrravetur og það var verið að fara yfir það út frá hinum fjölbreytilegustu sjónarmiðum. Við töldum að hæstv. ráðherra ætti að hafa þetta í hendi sinni. Hún gæti vel leyst málið með því að auka friðunina með því að fækka dögum. Veiðistjóri t.d. var með tillögu sem ég var sammála honum um, að t.d. mætti veiða einhvern tiltekinn fjölda daga í hverri viku. Ég segi það að ef menn hefðu viljað fara í fækkun daga var það ekki neitt tæknilegt vandamál. Þessi leið sem er valin núna er fyrst og fremst vond vegna þess að hún slítur samhengi hlutanna í sundur og hún slítur í sundur friðinn um þessi mál. Ég er alveg sannfærður um að veiðimenn og bændur og aðrir sem eiga hlut að máli eru tilbúnir til þess að ganga langt í því að friða en þeir þurfa að fá að vera með í þessum málum og þeir þurfa að fá að taka þátt í þeirri sátt sem hægt er að gera um málið.