Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:00:25 (1156)

2003-11-04 18:00:25# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel hið besta framtak að setja á þessa nefnd og finna út hvernig þetta skuli líta út í framtíðinni. Ég tel hins vegar að töluvert slys hafi orðið nú þegar og menn hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessu máli frá upphafi. Það var illa til þess stofnað í fyrravetur.

Ég tel að það sé alltaf ástæða til að hlusta á sérfræðinga í þessu máli og að engin ein niðurstaða liggi ótvírætt fyrir. Veiðistjóri hefur haft aðra skoðun en Náttúrufræðistofnun í þessu máli og fleiri aðilar sem hafa sérfræðiþekkingu á þessu sviði allt aðra skoðun einnig.

Ég held því ekki fram að veiða eigi mikið af rjúpu. Ég held því hins vegar fram að menn hafi gengið of langt með þessari ákvörðun og leita hefði átt sáttaleiða. Raunar ættu menn að leita leiða sem virka mundu fyrr en nefndin, sem hæstv. ráðherra er búinn að setja, nær að skila af sér. En vissulega hefur sú nefnd verkefni að vinna upp á framtíðina.