Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:01:49 (1157)

2003-11-04 18:01:49# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Birkir J. Jónsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um afléttingu veiðibanns á rjúpu sem flutt er af 18 hv. þingmönnum Framsfl., Sjálfstfl. og Frjálsl.

Við hv. alþingismenn sem stöndum að þessari þáltill. viljum stuðla að því að aðrar leiðir verði farnar í friðun rjúpunnar en þriggja ára veiðibann. Það er svo einfalt að við erum á móti þriggja ára veiðibanni. Við leggjum til ákveðnar aðgerðir, aðrar leiðir í fimm liðum. Ég ætla að lesa þær hér til áréttingar þó hv. framsögumaður, Gunnar Birgisson, hafi reyndar farið ágætlega yfir þær áðan.

Við leggjum til styttingu veiðitíma, svæðisbundna friðun, tímabundið sölubann, hámarksveiði á hvern veiðimann eða bann við veiðum tiltekna daga vikunnar.

Menn hafa talað um að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé vantraust á hæstv. umhvrh. Það er ekki rétt. Við treystum hæstv. umhvrh. til að velja bestu leiðina og við treystum Siv Friðleifsdóttur. Ég stend hér og segi: Ég treysti Siv Friðleifsdóttur.

(Forseti (JóhS): Hæstv. ráðherra.)

Fyrirgefðu, frú forseti. Mig langar að fjalla örlítið efnislega um málið. Rökstuðningurinn með ákvörðun hæstv. umhvrh. er aðallega sá að með friðun megi auka vöxt í stofninum þannig að stærð stofnsins verði allt að 50% meiri en ella.

Ég hef enga sannfæringu um að þessi rök Náttúrufræðistofnunar standist. Mín sannfæring er önnur og mér ber sem þingmanni að fara eftir henni. Ég byggi það á viðtölum við fjölmarga veiðimenn. Flestir þeirra veiða á bilinu 15--20 rjúpur hver. Þeir fullyrða að þeir séu ekki vandamálið hvað varðar ofveiði á rjúpu heldur séu það hinir svokölluðu magnveiðmenn sem er tiltölulega fámennur hópur sem leggst út heilu dagana og vikurnar með fullkomna bíla og vélsleða ásamt því að hafa hunda, tæki og tól. Þeir bera ábyrgð á allt að 50% af heildarveiði á rjúpu. Þetta er álitið í dag. Ég tel ljóst að þennan hóp þurfum við að stöðva. Við megum ekki láta þessa hegðun bitna á heiðarlegu fólki sem einungis gengur til rjúpna og veiðir handa sér og sínum í jólmatinn, um 15--20 rjúpur. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þessi hópur veiðimanna ráði úrslitum um framtíð og viðhald rjúpnastofnsins.

Háttvirtum þingmönnum hefur orðið tíðrætt um umrædda þáltill. og hafa rætt um að hún sé merkingarlaus. Því er ég einfaldlega ósammála. Með þessari ályktun viljum við, 18 þingmenn sem flytjum þetta mál, fá fram vilja þingsins. Í stjórnarskránni segir í 1. gr. að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Hér ríkir þingræði. Ég hef orðið var við það hjá hv. stjórnarandstöðu að hún ræðir mikið um þingræðið og stöðu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég bið hv. þingmenn að sýna okkur flutningsmönnum þessarar tillögu þá virðingu að leyfa okkur að kanna vilja þingsins í þessu máli. Það erum við að gera með þessari þáltill.

Hæstv. umhvrh. hefur bent á að hér þurfi jafnvel lagabreytingar við hvað varðar tvær af þessum tillögum, þ.e. um sölubann eða veiðikvóta. Að sjálfsögðu munum við flutningsmenn styðja hæstv. umhvrh. ef hún kýs að fara þá leið. Ég legg áherslu á að ég treysti Siv Friðleifsdóttur, hæstv. umhvrh., til að velja bestu leiðina í þessu máli. Það er einfaldlega þannig að það er sannfæring mín að þriggja ára veiðibann sé ekki sú leið sem við eigum að fara í þessu máli.

Ég vil að öðru leyti þakka umræðuna. Mér skildist á ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að Samf. stæði heil að baki hæstv. umhvrh. í þessu máli. Ég leyfi mér að efast um að svo sé. Það væri gott að fá fram vilja Samfylkingarinnar í þessu máli. Hún hefur að undanförnu að eigin sögn talað sem ábyrgur flokkur.

Ég óska eftir því að þingið afgreiði þessa tillögu til hv. umhvn., að hún fái efnislega umfjöllun og lýk þar með máli mínu.