Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:40:19 (1173)

2003-11-04 18:40:19# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef smáathugasemdir við ræðu hæstv. landbrh. Í fyrsta lagi er nú ekki hugsunin að draga þessa ágætu tillögu til baka.

Mér finnst hafa verið mótsagnir í ræðu hæstv. ráðherra. Hann segir réttilega að refurinn færi sig til í landinu eftir æti og hafi farið niður á mýrarnar og móana. Það hefur hann sannarlega gert. Hann flæðir um allt Suðurlandsundirlendið eins og hæstv. ráðherra er kunnugt. Einnig er hann kominn á Austfirði þar sem hann hefur ekki sést lengi. Það lá í orðum hæstv. ráðherra að hann væri að flýja hálendið af því að þar væri engin rjúpa á matseðlinum og þess vegna væri hann kominn niður í móana. Það er samt sérkennilegt að á síðustu tíu árum hefur refastofninn fimmfaldast þannig að eitthvað hefur hann nú haft að borða á fjöllunum. Það er alveg ljóst.

En ég er sammála því og mjög ánægður með að hæstv. ráðherra tók það sérstaklega fram að það þarf að gera átak til að fækka ref og mink. Það er vargur í okkar fuglalífi og mófuglinn er oft hart leikinn eftir bæði tófuna og minkinn.

Við ætlum svo sannarlega ekki að draga tillöguna til baka. Ég virði samt stuðning hæstv. landbrh. við hæstv. umhvrh.