Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:58:28 (1177)

2003-11-04 18:58:28# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Enn kemur hv. þm. hér upp og kvartar yfir því að Samf. ræði fullmikið form málsins en minna um efnisinnihald. Ég get lofað hv. þm. því að nokkrir þingmenn Samf. munu ræða efni frv. eins og gert hefur verið nú þegar í umræðunni. Hins vegar er eðlilegt í stuttum andsvörum að spurt sé um nokkur atriði sem tengjast forminu.

Það er auðvitað einnig mjög athyglisvert að heyra það hér hjá hverjum hv. þm. á fætur öðrum að treyst er á að Samf. bjargi ríkisstjórnarflokkunum úr þeim vanda sem þeir virðast vera komnir í. Það er t.d. afar athyglisvert að skoða fjölda flutningsmanna og bera þá saman við fjölda þingmanna í þingflokki og það væri fróðlegt að fá að heyra það frá hv. þm. hvernig þetta mál var afgreitt í þingflokki Sjálfstfl. vegna þess að það er greinilegt að það eru 14 þingmenn af 22 sem eru flutningsmenn að frv. Það segir okkur það, frú forseti, að það er ekki meiri hluti fyrir gjörðum hæstv. umhvrh. í þingflokki Sjálfstfl. Þess vegna hlýtur eðlilega að vakna sú spurning hvernig málið var afgreitt í þingflokki Sjálfstfl. Við getum síðan haldið áfram að leika okkur með tölur um það hvernig þetta mál færi í atkvæðagreiðslu í þingsalnum ef stjórnarandstaðan léti málið vera og ríkisstjórnarflokkarnir kæmu eingöngu að afgreiðslu málsins í þingsalnum. Ég er hræddur um að það gæti munað býsna litlu hvernig málið lægi og það hlýtur því að vekja þá spurningu: Hver telur hv. þm. að staða hæstv. umhvrh. sé, ef svo færi að tillaga hv. þingmanna sem frv. flytja yrði samþykkt í þingsalnum?