Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:33:06 (1202)

2003-11-05 13:33:06# 130. lþ. 21.1 fundur 67. mál: #A endurskoðun stjórnarskrárinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. varðandi málefni stjórnarskrárinnar. Það var tilefni orðaskipta okkar á milli fyrir einu eða tveimur árum, þ.e. þegar nokkuð langt var liðið á síðasta kjörtímabil, hvort áformað væri af hálfu forsrh. að setja endurskoðun stjórnarskrárinnar í einhvers konar farveg á nýjan leik. Forsætisráðherra svaraði efnislega á þá leið að hann teldi tímabært að huga að því. Maður átti allt eins von á því að slík endurskoðunarvinna færi af stað en af því varð ekki á síðasta kjörtímabili. Nú er hafið nýtt kjörtímabil þannig að mér finnst við hæfi að taka málið upp á nýjan leik og spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi í hyggju að skipa stjórnarskrárnefnd á þessu kjörtímabili og einnig hvaða tilefni væru að mati hæstv. ráðherra brýnust þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ég vil taka það fram fyrir mína hönd og flokks míns að við erum þeirrar skoðunar að það sé meira en tímabært að huga að þessum verkefnum á nýjan leik. Það er nokkuð um liðið síðan síðustu lotu sem tengdist endurskoðun stjórnarskrárinnar lauk með stjórnarskrárbreytingum, þá á ég við efnisbreytingar en ekki kjördæmabreytingar, með stjórnarskrárbreytingunni sem afgreidd var og staðfest 1995 þegar hinn nýi mannréttindakafli stjórnarskrárinnar kom til sögunnar.

Það hefur mikið verið rætt um að ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar þörfnuðust endurskoðunar og breyttar aðstæður kölluðu á það. Ýmsar hugmyndir hafa þar verið á kreiki, m.a. hér í þingsölum eins og nýleg þáltill. ber vitni um. Menn hafa einnig hreyft því að breyttar aðstæður í samskiptum Íslands við önnur ríki gætu kallað á breytingar á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem lúta að framsali fullveldis og hvernig því yrði fyrir komið, hvort tekin yrðu upp í stjórnarskrá okkar ákvæði um aukinn meiri hluta á Alþingi þegar um afgreiðslu minni háttar þjóðréttarsamninga væri að ræða og eftir atvikum um það búið hvenær slík mál færu til þjóðaratkvæðis. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ekki síst þurfi að huga að því með hvaða hætti þjóðaratkvæðagreiðslur eru látnar fara fram. Núverandi fyrirkomulag, að láta þær falla saman við kosningar til Alþingis án þess að um sérstakan atkvæðaseðil væri að ræða, er nánast óvirkt eins og nýleg dæmi sanna. Fróðlegt væri að heyra hvort hæstv. forsrh. teldi ástæðu til að athuga þessa hluti.