Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:41:39 (1204)

2003-11-05 13:41:39# 130. lþ. 21.1 fundur 67. mál: #A endurskoðun stjórnarskrárinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því að hæstv. forsrh. lýsi því yfir að hann vilji leita samstarfs við flokkana á þinginu um endurskoðun á stjórnarskrá. Það er ástæða til að við samfylkingarmenn fögnum því vegna þess að við fluttum þáltill. sem liggur fyrir þinginu og búið er að ræða varðandi endurskoðun á stjórnarskránni.

Ég tel ástæðu til að hvetja menn til þess að vinna hratt og örugglega í þessu máli. Það hafa reyndar legið fyrir fleiri en ein og fleiri en tvær yfirlýsingar frá hæstv. forsrh., t.d. um að endurskoða stjórnarskrána gagnvart ákvæðum um sameign þjóðarinnar á auðlindum í kringum landið. Ekki hefur orðið af því enn en það er ástæða til að taka eftir því að hann hafði það síðast í upptalningu sinni núna á verkefnum sem vert væri að skoða.

En það er gott að heyra að hæstv. forsrh. er til í samstarf um þetta.