Lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:59:15 (1211)

2003-11-05 13:59:15# 130. lþ. 21.3 fundur 64. mál: #A lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurnum til hæstv. utanrrh. vegna lágflugs og æfingaflugs orrustuflugvéla Bandaríkjahers. Kunnara er en frá þurfi að segja þeim sem fylgjast með fréttum að iðulega veldur slíkt miklu ónæði og er óvinsælt á þeim stöðum sem fyrir því verða. Þannig má t.d. vitna til fréttar í Morgunblaðinu laugardaginn 8. mars en þar segir frá því að kennarar og starfsmenn við Menntaskólann á Akureyri, alls um 40 manns, skrifuðu undir áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að hún banni erlendum her að stunda heræfingar á og við Akureyri og nota Akureyrarflugvöll sem stríðsæfingasvæði. Bent er á að á þessu skólaári hafi herflugvélar stundað æfingar yfir Akureyrarbæ á Akureyrarflugvelli og um Eyjafjörð oft í hverjum mánuði, iðulega dag eftir dag og valdið óbærilegri truflun á starfsemi stofnunarinnar. Þetta telja starfsmenn MA óviðeigandi og óviðunandi í herlausu landi friðar.

Vitna má í frétt í Ríkisútvarpinu frá 25. september sl. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Herþotur af Keflavíkurflugvelli rufu sveitakyrrðina í Biskupstungum og Hrunamannahreppi í gær. Margir bændur hafa kvartað undan hávaðanum í vélunum og svo mikil voru lætin að ekki heyrðist mælt mál innan dyra. Dýr ókyrrðust í haga og á sumum bæjum trylltust nautgripir vegna hávaðans frá þotunum.``

Síðan má vitna í fréttabréf eða lesendabréf í Morgunblaðinu 25. júlí í sumar en þar segir:

,,Í hádeginu hinn 22. júlí 2003 var ég undirritaður staddur með hópi þýskra ferðamanna á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Allt í einu barst gríðarlegur hávaði úr vestri og sjá mátti tvær herþotur frá bandaríska hernum koma inn með ströndinni. Allir viðstaddir gripu fyrir eyrun og óskuðu sendingu þessari för hið snarasta í hið neðra. Fuglarnir í björgunum ókyrrðust og mátti á svipstundu sjá þúsundir fugla fljúga upp með gargi miklu enda áttu þeir sér einskis von. Þessi leifturstutta röskun olli mikilli truflun bæði meðal hinna erlendu gesta ekki síður en málleysingjanna.``

Það mætti bæta við frétt um æfingar herþotna upp undir Látrabjargi fyrir nokkrum missirum sem sömuleiðis ullu þar miklum usla.

Af þessu tilefni hef ég leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.:

1. Hvaða reglur gilda um lágflug orrustuflugvéla Bandaríkjahers og aðrar æfingar yfir byggð eða á öðrum viðkvæmum stöðum?

2. Hvaða reglur gilda um flug vélanna yfir hljóðhraða og hvar og hvenær þeim er heimilt að rjúfa hljóðmúrinn?

3. Hyggst ráðherra endurskoða áðurnefndar reglur um æfingaflug Bandaríkjahers í ljósi fram kominnar óánægju fari svo að vélarnar hverfi ekki úr landi á næstunni?

En út af fyrir sig væri það einföld og varanleg lausn á því vandamáli að landið losnaði við þessa óværu.