Lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:06:39 (1213)

2003-11-05 14:06:39# 130. lþ. 21.3 fundur 64. mál: #A lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það má vissulega viðurkennast að að einhverju leyti hefur verið tekið tillit til þeirrar megnu óánægju sem uppi hefur verið undanfarin ár með æfingar og flug herflugvéla yfir landinu, t.d. meðan það var enn leyft á árstímum þegar ferðamenn voru algengir. Frá því hafa að vísu verið undantekningar á æfingatímum o.s.frv. Ég held því miður að vísu að einhver brögð séu að því að þessar reglur hafi ekki verið virtar. Af og til hafa borist fregnir af því að hljóðmúrinn hafi verið rofinn alveg upp undir ströndum landsins eða jafnvel yfir landi og ég minni þar t.d. á fregnir frá Látrabjargi. Ég held að þetta sé kannski hvað tilfinnanlegast á þeim stöðum þar sem herþoturnar eru að æfa aðflug við varaflugvellina og þá sérstaklega á Akureyri, ofan í þröngum og kyrrviðrasömum Eyjafirðinum. Ég hef orðið vitni að því oftar en einu sinni að það veldur gríðarlegu ónæði, hávaða og truflun þegar vélarnar fara þar alveg niður í nokkur hundruð feta hæð og gefa síðan fullt afl og rífa sig upp úr firðinum, gjarnan upp yfir Akureyri eða upp yfir höfninni.

Það hlýtur því að vera spurning hvort ekki megi gera þar einhverjar breytingar á, draga úr þeim æfingum eða ná því fram í flughermum eða með einhverjum slíkum hætti þannig að ekki þurfi að koma til jafnmikilla og tíðra æfinga og undanfarið hafa verið þarna, þ.e. þangað til þá hin varanlega lausn, sem ég nefndi og hæstv. ráðherra kom nú ekki inn á, nær fram að ganga að herflugvélarnar hverfi hér endanlega úr landinu.

Ég vil að vísu taka það sérstaklega fram að sú frétt sem kom í fjölmiðlum fyrir skömmu síðan gladdi mig mjög, að herþoturnar væru yfirleitt óvopnaðar. Það tel ég vera virkilega til bóta því ekki væri nú á bætandi ef þær væru, miðað við þá áhættu og það ónæði sem er samfara þeim, að þvælast hér yfir byggð í landinu ef það bættist svo við að þær bæru vopn auðvitað í algeru tilgangsleysi. Þannig að ég er ósammála öllum þeim sem töldu það gagnrýnisvert og fagna því sérstaklega að þessar þotur skuli yfirleitt vera óvopnaðar og þar með er náttúrlega enn síður nokkur ástæða til að hafa þær í landinu.