Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:16:59 (1217)

2003-11-05 14:16:59# 130. lþ. 21.4 fundur 84. mál: #A upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð ánægð með hvernig málið hefur þróast miðað við þær upplýsingar sem koma fram á þessum fréttavef og hlýt að geta þess, þó ekki sé nema til gamans, að fréttamaðurinn upplýsti að hann hefði fengið upplýsingar um breytingarnar á 38. hæð, hæð aðalritarans hjá Sameinuðu þjóðunum, og að einn af nánum samstarfsmönnum Kofi Annans hafi undrast að Norðurlöndin hafi ekkert brugðist við þessari breytingu og þessum niðurskurði. Væntanlega hefur þarna eitthvað slegið saman að peningarnir sem voru lagðir til íslenskuþáttarins hefðu verið til þess að styðja við íslenskt stöðugildi og við skulum ekkert harma það þó að meira hafi verið gert úr framlagi Íslands en efni stóðu til.

En miðað við það að þessar breytingar hafa orðið finnst mér jákvætt, ef miðstöð Sameinuðu þjóðanna verður opnuð hér, ef að það verður hægt að koma því á að miðstöðin geti jafnframt sinnt upplýsingaskyldu og átt samvinnu við upplýsingaskrifstofuna í Brussel um þau málefni sem áður þótti ástæða til að koma á framfæri við Norðurlöndin, mundi þá vera komið á framfæri til okkar.

Miðað við fréttirnar og gagnrýnina sem uppi er um framkvæmdina og linku Norðurlandanna að bregðast þarna við þá ætla ég að vera fremur sátt við málið ef af verður með þessa miðstöð Sameinuðu þjóðanna, að hún sinni þessum þætti.