Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:19:04 (1218)

2003-11-05 14:19:04# 130. lþ. 21.5 fundur 92. mál: #A landbúnaðarstefna Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það var í júní í sumar sem bárust fréttir af því að búið væri að gera og ná niðurstöðu um breytingar á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Franz Fischler, framkvæmdastjóri landbúnaðarmála hjá Evrópusambandinu, var nokkuð brattur í umsögn sinni um breytingar á landbúnaðarstefnunni og talaði um að nú mætti Evrópusambandið sterkt til leiks til samninga við Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO. Hann fullyrti að endurskoðunin leiddi af sér meira frelsi fyrir evrópska bændur að jafna framboð og eftirspurn í greinum sínum og að unnt yrði að hindra að smjörfjöll, vínbirgðir og annað hlæðist upp.

Evrópusambandið hefur leitt þann ríkjahóp sem stendur vörð um þá tegund landbúnaðar sem hefur best þekkst og verið haldið utan um á norðurhveli. Nú virðist sem þeir hjá Evrópusambandinu ætli að breyta að mestu yfir í svokallaða græna styrki, þ.e. styrkir sem verða ekki lengur framleiðslutengdir eins og er t.d. hjá okkur á Íslandi. Það virðist sem bóndinn eigi að fá tiltekna styrki og fjárhæðir við tilteknar aðstæður, óháð því hvaða verkefni hann ætlar að fara í, hvort sem það er skógrækt, þjónusta, eftirlit eða einhvers konar uppbygging. Erfitt að átta sig á því en ég býst við því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur nánar um það.

Þar sem þrír meginhópar innan Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar, Evrópusambandið, Bandaríkin og þróunarlöndin hafa verið að takast á um stefnuna sem verður tekin innan Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar, hlýtur það að geta haft talsverð áhrif á okkur hvernig Evrópusambandið mótar sína stefnu, sérstaklega ef Evrópusambandið breytir í aðra átt en við erum kannski að vinna að innan Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar.

Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. um álit hans á þróuninni og hvernig hann telji að við munum þurfa að bregðast við, hverjar séu helstu breytingar sem samþykktar hafi verið á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og hvernig þessar breytingar falla að íslenskum hagsmunum.