Lögmæti innrásarinnar í Írak

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:31:48 (1222)

2003-11-05 14:31:48# 130. lþ. 21.6 fundur 110. mál: #A lögmæti innrásarinnar í Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er fyrst og fremst með tvennum hætti sem valdbeiting gegn fullvalda ríki innan viðurkenndra landamæra getur talist lögleg í þjóðarétti. Í fyrra tilvikinu er það ef réttur til sjálfsvarnar hefur stofnast á grundvelli 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ríki hefur þannig rétt til að verja sig eitt eða með öðrum ef á það hefur verið ráðist með hervaldi.

Hitt tilvikið er ef eitthvert ástand er þannig að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað skv. 39. gr. að fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof, eða ríki hafi gert árás sem getur þá aftur varðað við 51. gr. eins og áður sagði. Sé slíkt ástand úrskurðað, þ.e. að það ógni heimsfriði, skal fyrst tæma öll efnahagsleg, diplómatísk, pólitísk og lagaleg úrræði, sbr. 40. og 41. gr. stofnsáttmálans, áður en öryggisráðið heimilar valdbeitingu skv. 42. gr.

Nú er það ljóst í fyrsta lagi að Írak réðst ekki á Bandaríkin né Bretland. Í öðru lagi er ljóst að öryggisráðið úrskurðaði ekki að ástandið í Írak ógnaði heimsfriði og fylgdi því eftir með annarri ályktun sem heimilaði valdbeitingu skv. 42. gr. Engin slík samþykkt var gerð á vegum öryggisráðsins. Í þriðja lagi liggur fyrir að þrátt fyrir linnulausa leit í marga mánuði og gríðarlegan kostnað hafa engin gereyðingarvopn fundist í Írak. Vaxandi líkur eru á því að þau hafi alls ekki verið til staðar. Alvarlegra er að sterkar vísbendingar eru uppi um að blekkingum hafi verið beitt eða a.m.k. hafi menn vísvitandi ýkt þá ógn sem stafaði af fyrrverandi stjórnvöldum í Írak.

Í þessu ljósi hef ég leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.:

1. Hvert er mat ráðherra á lögmæti innrásar Bandaríkjamanna og Breta í Írak fyrr á árinu í ljósi þess að engar sannanir hafa fundist fyrir gereyðingarvopnaeign Íraka og svo virðist sem sú hætta sem umheiminum stafaði af þáverandi stjórnvöldum í Írak hafi verið ýkt?

Hér mætti bæta því við að engar sannanir hafa heldur fundist fyrir tengslum írakskra stjórnvalda við hryðjuverkasamtökin al Qaeda.

2. Hefur ríkisstjórnin hugleitt þann möguleika að draga til baka stuðning sinn við innrásina í Írak og láta taka Ísland af lista yfir þær þjóðir sem studdu stríðið?

3. Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til áframhaldandi bandarískra yfirráða í Írak?