Þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:46:42 (1227)

2003-11-05 14:46:42# 130. lþ. 21.7 fundur 212. mál: #A þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Einar Karl Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég beini spurningu til hæstv. utanrrh. varðandi það hvernig hann og ráðuneyti hans hyggist tryggja sveitarstjórnarmönnum aðgang að Evrópusamstarfinu.

Sveitarstjórnarmál á Íslandi eru í hæsta máta Evrópumál. 70% af þeim löggerningum ESB sem leidd eru í lög hér koma til framkvæmda á vettvangi sveitarstjórna. Evrópureglur gilda um veitumál, sorphirðu, innkaup og útboð, starfsmannahald, samkeppnisreglur og fleira á vettvangi sveitarstjórna. Kunnara er en frá þurfi að segja að lýðræðishallinn innan ESB hefur verið stöðugt til umræðu um langan tíma og til mótvægis hefur Evrópuþingið fengið löggjafarvald. Völd ráðherraráðsins hafa verið aukin á kostnað embættismanna framkvæmdastjórnarinnar. Nálægðarreglan um ákvarðanir hefur verið innleidd. Völd og þátttaka svæðisbundinna stjórnvalda í undirbúningi ákvarðana hafa verið stóraukin, m.a. með svæðanefnd sveitarstjórnarmanna. Í komandi svokallaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að aðkoma sveitarstjórna og þjóðþinga verði aukin enn frekar. Það gliðnar sem sagt sífellt milli reglna ESB og þeirra reglna sem gilda á EES-svæðinu. Sú gliðnun grefur undan tilvist EES-samningsins og markmiðum hans.

Aðkoma fulltrúa almennings EFTA-ríkjanna að pólitísku samráði innan ESB fer sem sagt minnkandi ár frá ári. Í rauninni er ekki aðeins um að ræða tvöfaldan lýðræðishalla í þessu efni hjá okkur, heldur fullveldishalla sem er að verða ólíðandi. Utanrrn. hefur ýmislegt gert til að vekja athygli á þessum málum og komið hefur fram hjá ráðherranum að hann hafi áhuga á því að reyna að fá aðgang fyrir sveitarstjórnarmenn að svæðanefnd ESB og áhuga á því að stofnuð verði sveitarstjórnarnefnd EFTA með ráðgjafarnefnd EFTA sem fyrirmynd. Þess vegna er spurt hvernig þessum áhugamálum miði og hvaða möguleikar eru á að ná fram meiri áhrifum fyrir íslenska sveitarstjórnarmenn á vettvangi Evrópusambandsins.