Þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:49:16 (1228)

2003-11-05 14:49:16# 130. lþ. 21.7 fundur 212. mál: #A þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í utanrrn. hefur verið lögð sérstök áhersla á málefni sveitarfélaganna og EES undanfarin ár og hvernig megi tryggja betur aðgang þeirra að EES-samstarfinu. Það er vissulega ekki mitt að segja íslenskum sveitarfélögum fyrir verkum. Íslenskir sveitarstjórnarmenn eru fullfærir um að móta þá afstöðu sem best hentar hagsmunum þeirra hverju sinni og umbjóðenda þeirra. Við í ráðuneytinu höfum hins vegar lagt áherslu á mikilvægi þess að sveitarstjórnarmenn taki öflugan þátt í Evrópuumræðunni og að utanrrn. aðstoði íslenskar sveitarstjórnir sem kostur er við hagsmunagæslu á erlendri grund. Sveitarfélögin hafa í vaxandi mæli talið sig vera út undan að því er varðar málefni EES, sem er sérstaklega bagalegt í ljósi þess hve mikla ábyrgð þau bera á framkvæmd EES-reglna. Mér hefur borið skylda til að bregðast við því, ekki síst vegna hins aukna vægis sem sveitarstjórnarstigið hefur fengið innan ESB undanfarin ár og það hef ég gert með margvíslegum hætti.

Haustið 2001 var tekin sú ákvörðun í utanrrn. að sinna markvissar þeim málum EES-samningsins sem varða sveitarfélögin í landinu. Markmiðið var m.a. að gera sveitarfélögunum viðvart þegar nýjar gerðir eða tilskipanir er varða sveitarfélögin eru í undirbúningi. Sérstökum starfsmanni á viðskiptaskrifstofu utanrrn. var falið að sinna málefnum er varða EES og sveitarfélögin og yrði hann m.a. tengiliður og sæi um að miðla upplýsingum frá Brussel og fylgjast með gangi mála þar, ekki síst með aðstoð fulltrúa annarra ráðuneyta í sendiráðinu þar. Meðal annars var boðað til fundar með 22 stærstu sveitarfélögum landsins um EES og sveitarfélögin.

Í október 2001 var efnt til fundar með fulltrúum nokkurra ráðuneyta um málefni sveitarfélaganna og EES og þeim kynnt að ákveðið hefði verið að sinna framvegis EES-málum sveitarfélaga sérstaklega. Í framhaldi af þeim fundi ákvað utanrrn. að setja á fót starfshóp sem hefði m.a. það hlutverk að fylgjast með þróun löggjafar innan ESB sem snerta málefni sveitar og héraðsstjórna og gera stjórnvöldum grein fyrir afleiðingum hennar fyrir íslensk sveitarfélög. Utanrrn. fer fyrir þessum starfshóp sem nú hefur starfað í tvö ár. Á þeim tíma hefur skapast prýðileg samvinna á þeim vettvangi. Auk þess að funda reglulega hefur starfshópurinn staðið fyrir tveimur stórum ráðstefnum um EES og sveitarfélögin, 8. febrúar 2002 og 4. apríl sl. Á þeim ráðstefnum hefur verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að EFTA-ríkin komi í eins ríkum mæli og unnt er að mótun löggjafar sem okkur er á endanum ætlað að fylgja. Oft og tíðum er verið að fjalla um löggjöf sem varðar hagsmuni almennings og ekki síður hagsmuni sveitarsjóða og atvinnulífs. Með stofnun nefndarinnar hefur verið verulega bætt úr upplýsingum til sveitarstjórnanna.

Mikilvægt er að íslenskum sveitarfélögum sé gert kleift að sinna hagsmunagæslu bæði að því er varðar EES-löggjöf og til að nýta þau tækifæri sem gefast í EES-samningnum, t.d. með þátttöku í ýmsum samstarfsáætlunum á þessum vettvangi. Ekki síst í ljósi þess að EES-samningurinn minnist ekki á málefni sveitarfélaga eða aðkomu þeirra að samráði eða framkvæmd EES-samningsins. Ég fól því þessum starfshópi í febrúar sl. að gera skýrslu með tillögum sem lagðar yrðu fyrir ríkisstjórn um framtíðartilhögun á streymi upplýsinga og samráði milli sveitarfélaga og stjórnvalda um EES-mál. Skýrslunnar mun verða að vænta í lok þessa mánaðar.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að utanrrn. hefur að beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga unnið að því að fá aðkomu að svæðanefnd ESB og mun reyna að fá samstöðu innan EFTA um að stofnuð verði sveitarstjórnarnefnd EFTA með ráðgjafarnefnd EFTA sem fyrirmynd. Svæðanefnd ESB er skipuð fulltrúum sveitarstjórnarstigsins og hefur veigamiklu hlutverki að gegna sem umsagnaraðili um löggjöf Evrópusambandsins.

Loks er þess að geta að til að styrkja aðkomu sveitarfélaganna að EES-samstarfinu hefur utanrrn. nú í um ár staðið straum af kostnaði við þátttöku eins fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga á fundum ráðgjafarnefndar EFTA. Það er gert á grundvelli þess að sveitarfélögin eru einn stærsti vinnuveitandinn í landinu.