Þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:59:02 (1232)

2003-11-05 14:59:02# 130. lþ. 21.7 fundur 212. mál: #A þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Staðfest hefur verið í þessari umræðu að sveitarstjórnarmenn fylgjast ekki nægilega vel með því sem gerist í þessum málum. Við höfum reynt að bæta úr því eftir því sem hægt er. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi fylgist ekki nægilega með því heldur og hef oft ítrekað það að nauðsynlegt væri fyrir Alþingi að hafa starfsmenn í Brussel til að fylgjast með málum. Það sé ekki nægilegt að ráðuneytin og utanrrn. geri það. Ég er löngu búinn að segja þá skoðun mína að ég telji að Alþingi eigi að fylgjast miklu betur með undirbúningi löggjafar og þingið væri þá betur í stakk búið til að taka á málum þegar þau koma hér til umfjöllunar. Má þar t.d. nefna mál sem nú er til umfjöllunar á Alþingi sem varðar bráðabirgðalög sem reyndist nauðsynlegt að setja.

Að því er varðar það hvort líklegt sé að EES-samningurinn verði endurskoðaður þá er ég svartsýnn á það. Illa gekk að ná samstöðu um það innan EFTA en samstaða náðist samt og framkvæmdastjórnin tók því vel, Evrópusambandið tók því vel. En vísbendingar núna benda til þess að þar verði mjög á brattann að sækja. Hins vegar er það skylda okkar að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hafa þau áhrif sem við getum á grundvelli EES-samningsins. Utanrrn. hefur að sjálfsögðu lagt sig fram um að koma því til leiðar, hvort sem það er á sveitarstjórnarstiginu eða annar staðar, að við getum það og við munum halda því starfi áfram.

Það eru kostir og gallar við að taka þátt í þessu starfi. Það eru líka kostir og gallar (Forseti hringir.) við að vera aðili að Evrópusambandinu. Allt þurfa menn að meta og þetta er eitt af því sem er mikilvægt að ræða í því samhengi.